143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rauður þráður í mínum málflutningi að ekki sé þörf á aðgerðum eins og þessum. Þær eru of dýrar, of ómarkvissar, of óréttlátar og þær þjóna ekki skynsamlegum hagstjórnarlegum tilgangi. Það er rauði þráðurinn í mínum málflutningi.

Ég hef líka sagt að það sé dálítið annað upp á teningnum núna í þjóðfélaginu en t.d. 2010 þegar við blasti sviðin jörð og fjöldagjaldþrot heimila. Síðan þá hefur ýmislegt gerst. Nú þurfum við að íhuga hvernig við bætum þjóðfélagið á annan hátt.

Ég fór líka yfir það hvernig sum heimili eru vissulega í vanda og hvernig það slær mig að í þessum yfirgripsmiklu aðgerðum er ekkert verið að leysa vanda þeirra. Það liggur líka í orðum mínum að ég tel að það þurfi að leysa vanda þeirra.

Ég tel að ákveðinn hópur sem er með verðtryggð fasteignalán, sérstaklega þeir sem keyptu í kringum 2007, (Forseti hringir.) sé í miklu meiri vanda en þeir sem keyptu 2004 (Forseti hringir.) og það megi íhuga hvernig hægt sé að (Forseti hringir.) mæta vanda þess hóps að sjálfsögðu.