143. löggjafarþing — 109. fundur,  14. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[00:22]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég ræði hér nefndarálit um frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána frá 4. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem ég undirrita einn.

Þetta mál er ekkert sérstakt skemmtiefni fyrir mér. Mér hefur fundist allan tímann eins og ég horfi upp á snjóflóð sem einhver hefur sett í gang, annaðhvort náttúran eða einhver, og ekkert fær stöðvað og þetta stefnir á mann eins og náttúruhamfarir. Ég færi hér rök fyrir því að þetta mál er ekki gott, þessi lausn er ekki góð og það er ekki skemmtilegt að þurfa að ganga gegn þingflokki sínum og félögum í þessu máli.

Í fyrsta lagi hef ég gert athugasemd við það að frumvarpið heiti frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána. Það er ekki verið að leiðrétta eitt eða neitt, það er engin reiknivilla neins staðar. Verðtrygging var rétt reiknuð o.s.frv. Það er ekki verið að leiðrétta neitt, það er verið að fella niður skuldir. Þetta er því rangnefni.

Mikið hefur verið talað um forsendubrest. Í janúar 2009 náði tólf mánaða verðbólga hámarki, náði hæstu hæðum í 18,6% og þá fóru menn að tala um forsendubrest. Mér þótti það mjög merkilegt. Ég mundi eftir því að fyrir aðeins sex árum fór tólf mánaða verðbólga í 9,4%. Ég man líka þá tíð árin 1975 til 1984, í heil tíu ár, að verðbólgan fór ekki niður fyrir 30%. Hún var alltaf yfir 30%, fór upp í 80% þegar verst var. Og að tala um að það sé forsendubrestur, þ.e. menn hefðu mátt reikna með því að verðbólgan færi ekki yfir 18%, finnst mér fráleitt. Fólk hlýtur þó að þekkja Íslandssöguna, annað er fráleitt. Það er nánast innbyggt að öðru hverju komi svona verðbólguskot.

Þannig að ég tel þetta ekki vera forsendubrest. Ég tel miklu frekar að skyndilegt atvinnuleysi, almennt tekjufall og hækkandi skattar sé forsendubrestur. Svo má ekki gleyma því að venjulegt heimili eyðir um 25%, jafnvel 20% af ráðstöfunarfé sínu í húsnæði, þ.e. í afborganir af verðtryggðum lánum. Afgangurinn, 70–80% er framfærsla og hún er verðtryggð. Framfærslan er verðtryggð — eplin, hveitið, allt sem börnin þurfa, gallinn og allt þetta. Það er framfærsla og hún er verðtryggð. Enginn hefur talað um forsendubrest þar. Segjum að einhver hjón hafi skipulagt það að eiga tvö eða þrjú börn á grundvelli þess að framfærslan yrði svona og svona. Þá hækkar framfærslan um 18% á tólf mánuðum og allt í einu duga tekjurnar ekki lengur til framfærslu. Hvað gerir fólk þá? Heimilin eru ótrúlega sveigjanleg í því að skera niður útgjöld þegar þau lenda í slíkri stöðu. Og það gerðu menn.

Þær aðgerðir sem hér er farið út í eru í mörgum tilvikum óréttlátar. Í nefndarálitinu tek ég tvö dæmi af tvennum hjónum þar sem ég nota upplýsingar frá Þjóðskrá um þróun fasteignaverðs og verðlagsupplýsingar frá Hagstofunni um lánskjaravísitölu. Annað ræður verði á fasteignum og hitt ræður verði á lánum, að jafnaði. Auðvitað hækka sumar eignir meira og aðrar minna og sumir kaupa dýrt og aðrir kaupa ódýrt o.s.frv., en að jafnaði er þetta svona.

Við skulum gefa okkur að hjón A hafi keypt 120 fermetra fjögurra herbergja íbúð fyrir rúmum 15 árum, þ.e. í mars 1999. Kaupverðið var 10 millj. kr., en það var þá jafnaðarverð fyrir fjögurra herbergja íbúð. Þau fá lánað fyrir þessu, ég gef mér 80% lán, 8 milljónir, og það til 40 ára o.s.frv. Ef maður skoðar þróun þessa láns hefur það hækkað vegna verðbólgu um 126%, en íbúðin sem hjónin keyptu á sama tíma hefur hækkað um 269%, þ.e. íbúðin hefur hækkað miklu meira en lánið. Og hafi menn haft að forsendu að þeir mundu alltaf borga sama hlutfall af íbúðinni getur þessi fjölskylda aldeilis brosað í kampinn og sagt að sú forsenda hafi staðist heldur betur því lánið hefur hækkað miklu minna en íbúðin. Þessi fjölskylda er í gróða miðað við það sem mátti vænta þegar hún keypti.

Hjón B keyptu sams konar fjögurra herbergja íbúð í sömu blokk, ég gef mér það, í janúar 2008 fyrir rúmum sex árum á toppi bólunnar. Þá var verð á þessari meðalíbúð samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár komið upp í 32,7 milljónir. Ég gef mér að fólkið hafi keypt íbúðina fyrir það verð. Það hafi fengið 80% lánað eins og gangurinn var þá, lánið var samtals 26,2 milljónir. Þá gerist það merkilega að frá janúar 2008 til mars 2014 hækkar verðmæti íbúðarinnar einungis um 4,2 milljónir, þ.e. um 13%, en lánið hækkar miklu, miklu meira. Eftirstöðvar lánsins er komnar upp fyrir verð íbúðarinnar. Þetta fólk átti 6,5 milljónir í eigin fé, það var munurinn á 80% láninu og verðinu, en það gæti núna selt íbúðina fyrir 38,9 milljónir og skuldar enn þá 2 milljónir. Eigið féð er farið úr 6,5 milljónum í mínus 2 milljónir.

Þetta er vandinn sem við glímum við. Nú gerist það að bæði þessi heimili fá niðurfellingu skulda, skuldaleiðréttingu sem kallað er. Fjölskyldan sem er í hagnaði í fyrra dæminu fær skuldaniðurfellingu og að mínu mati þarf hún ekkert á því að halda. Hitt heimilið sem er komið í 2 milljónir í skuld fær líka skuldaleiðréttingu, en hún dugar bara ekki, nær ekki einu sinni að bæta það sem þau skulda í mínus þar sem eigið féð er komið í mínus.

Þessi aðgerð lagar því ekki stöðu þeirra sem verst eru settir, en bætir hins vegar stöðu annarra sem þurfa ekkert á því að halda.

Ég hef reynt að meta þessa stöðu og gerði það fyrir nokkrum árum með aðstoð ríkisskattstjóra eða starfsmanna þar á þessu tímabili frá desember 2004 til júní 2009. Það er hægt að reikna þetta nákvæmlega út. Þeir sem keyptu nákvæmlega á þessu tímabili hafa tapað í þeim skilningi að íbúðirnar hafa hækkað minna heldur en lánin, eða öfugt, lánin hafa hækkað meira en íbúðin. Það voru um 13 þúsund heimili, tæplega þó, sem keyptu sína fyrstu íbúð þá. Það er fólkið sem virkilega tapaði. Síðan voru um 15 þúsund heimili til viðbótar sem keyptu aðra eða þriðju íbúð, þ.e. keyptu íbúð og höfðu átt íbúð áður. Þær fjölskyldur voru í þeirri stöðu að þær höfðu grætt á gömlu íbúðinni og notuðu þann hagnað til að greiða fyrir nýju íbúðina. Það eru áhöld um það hvort þær fjölskyldur eru í plús eða mínus og erfitt að segja til um það.

Það voru því um 28 þúsund heimili sem keyptu á þessum tíma, af 74 þúsund heimilum. Um 46 þúsund heimili keyptu fyrir 2004 og eru í gróða og fá niðurfellingu. Meginhluti heimila sem fær niðurfellingu er ekki í þörf fyrir það. Svo eru 8.600 heimili sem voru með gengistryggð lán sem er sennilega mesti gróði sem heimili hafa lent í, borga erlenda vexti á íslenskar krónur, kannski 2, 3% eða 4% vexti á óverðtryggt lán. Það er náttúrlega draumastaða og hún stóð í nokkur ár. Þannig að ég hef ekki áhyggjur af þeim heimilum.

Það eru stórir hópar sem ekki njóta gjafa- eða örlætisgerninga frumvarpsins. Þar ber fyrst að nefna leigjendur, en ég hef borið hag þeirra fyrir brjósti, merkilegt nokk. Ég hélt að það væru kannski frekar vinstri menn sem bæru hag leigjenda fyrir brjósti, en svo hefur nú ekki verið hér úr þessum ræðustól. Leigjendur eru 25% heimila. Þeir fá ekki neitt.

Síðan eru um 20%, ég fæ ekki nákvæmlega séð hversu stór sá hluti er, aðallega eldra fólk sem býr í skuldlausri eign, fólk sem skuldar ekki eignina sem það á. Það er eiginlega dæmi um það að kenningin um veðrýmd stenst ekki, sú kenning að þegar menn fái aukna veðrýmd fari þeir að skuldsetja sig til að kaupa eitt og annað. (Gripið fram í.) Þessi hópur hefur að minnsta kosti séð til þess að hann skuldar ekki neitt. Það er vegna þess að það er svo langt síðan hann keypti íbúð, það eru komin kannski 40 ár og hann er búinn að greiða upp lánið þó verðtryggt hafi verið. Hann tekur ekki ný lán, býr bara í skuldlausri eign. Þær kenningar um að menn hlaupi eftir veðrýmd held ég að eigi ekki alveg við á Íslandi. Ég held að það sé ákveðið markmið hjá Íslendingum um að eiga eign sína skuldlausa. Ég hef að minnsta kosti orðið mjög var við það að margir jafnaldrar mínir hafa hlaupið til og greitt upp allar skuldir sem þeir mögulega geta og eru flestir orðnir skuldlausir. Það er þessi hópur.

Kaupmáttur hefur vaxið og það er sýnt í töflu í nefndarálitinu.

Ég átti eftir að tala um aðra stóra aðila, það eru búsetufélög, húsnæðissamvinnufélög og leigufélög, stúdentar o.s.frv. sem fá ekkert út úr þessu frumvarpi, þótt í eðli sínu séu menn að borga leigu sem er verðtryggð. Ég vil geta þess að leigjendur borga almennt séð verðtryggða leigu. Þar er líka æpandi forsendubrestur á hverju horni án þess að neitt sé gert í því.

Í gegnum tíðina hefur það verið þannig úti á landi á stöðum þar sem markaðurinn er mjög veikur, að þeir sem hafa byggt sér þar íbúð eða fasteign, oftast nær einbýlishús, hafa þurft að sæta því — og þetta hafa menn vitað — að markaðsverðið er lágt og þeir geta selt á helmingi nýbyggingarverðs. Það hefur enginn verið að væla neitt yfir því. Menn áttu kannski 5 milljónir, keyptu íbúð eða byggðu íbúð fyrir 20 milljónir og geta selt hana á 10 milljónir. Allt í einu fer eigið fé úr því að vera plús 5 milljónir í mínus 5 milljónir. Ég veit ekki til þess að neinn hafi kvartað sérstaklega mikið yfir því eða talað um að þurfi að leiðrétta slíkan forsendubrest. En þetta er nákvæmlega það sama.

Svo hefur heldur ekki verið talað um að leiðrétta þann forsendubrest sem gerðist um daginn þegar Vísir flutti vinnsluna frá Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík. Afleiðingin er sú að í sumum þessara sveitarfélaga lækkar verð á fasteignum.

Ef maður skoðar kaupmátt hefur hann líka vaxið. Einungis á árunum 2007 og 2008 er kaupmáttur fallandi. Öll önnur ár, líka hjá hjónunum sem keyptu 1999, hefur kaupmáttur vaxið gífurlega. Það er því miklu léttara að borga af láninu núna heldur en þá af því lánið er verðtryggt, en kaupmáttur mælir jú kaupmátt umfram verðbólgu. Þannig að bæði íbúðin og launin hafa hækkað meira heldur en lánið. Þetta fólk fær bætur frá ríkissjóði.

Í nefndarálitinu er tafla yfir áunninn hagnað sem menn hefðu kannski gaman af að skoða.

Það er ekki gerð tilraun til þess í þessu frumvarpi að laga bága stöðu þeirra sem lentu í bólunni. Það finnst mér vera eiginlega verst. Eins og ég gat um eru þetta um 28 þúsund heimili, þar af 13 þúsund sem keyptu sína fyrstu íbúð. Mér taldist til fyrir nokkrum árum þegar ég var að reyna að reikna þetta að það mundi kosta 40 milljarða að leiðrétta allt dæmið. Þá er búið að redda þeim sem eru í vanda, en það stendur ekki til. Það á að setja 80 milljarða til allra og það breytir ekki þessari stöðu.

Svo eru það aðrir hópar sem ekki fá leiðréttingu. Þar ber náttúrlega hæst þá sem eru með verðtryggð námslán. Það er svo merkilegt að námslán eru fjárfestingarlán þar sem menn fjárfesta í menntun, en á skattframtali er bara skuld, engin eign. Eftir því sem fleiri stunda nám í landinu, þeim mun skuldsettari verða heimilin af því það er engin eign á móti námslánunum. Þetta þyrfti náttúrlega að skoða. En verðtryggðu námslánin eru tekin út fyrir. Mér finnst það svo sem allt í lagi því menn njóta væntanlega hærri launa út úr því dæmi.

Ef maður skoðar verðbólgu og stöðugleika er talið að aðgerðin kunni að öðru óbreyttu að hækka verðbólgu um 1% í fjögur ár, það álit kemur fram í umsögnum. Ef Seðlabankinn bregst við með hækkun stýrivaxta munu raunvextir hækka um hálft prósent og það lendir á heimilunum, fyrir utan það að verðbólgan lendir á heimilunum líka.

Mér finnst hins vegar mikilvægast, fyrst við eigum þessa 80 milljarða, að spekúlera hvað við mundum gera við þá. Það finnst mér mikilvægast að skoða. Ég er þannig gerður að ég mundi vilja lækka skuldir ríkissjóðs númer eitt, tvö og þrjú vegna þess að það kemur öllum heimilum til góða, líka framtíðarskattgreiðendum, börnunum okkar o.s.frv. Vaxtagreiðslur ríkissjóðs mundu svo lækka eftir fjögur ár um 3 milljarða árlega, lauslega skotið á. Það væri því æskilegast.

Svo er náttúrlega til annar óskalisti, fyrst ég tala um óskalista eins og það séu að koma jól. Ég mundi vilja fara blandaða leið með lækkun skulda ríkissjóðs og skattalækkunum. Ég held nefnilega að skattarnir séu farnir að sliga atvinnulífið allverulega. Ég mundi sérstaklega vilja lækka fjármagnstekjuskattinn sem ég held að sé orðinn óhóflegur enda sér maður það á innstæðum heimilanna sem rýrna í hverjum mánuði að raungildi. Íslendingar eru ekkert heimskir, ef þeir tapa á hverju einasta ári á því að leggja fyrir og eru skattlagðir í ofanálag hætta þeir bara að leggja fyrir og fara að kaupa sér bíla og utanlandsferðir, úr og sitthvað fleira.

Síðan mundi ég vilja lækka tryggingagjaldið. Af hverju tryggingagjaldið? Tryggingagjaldið er skattur á laun, þ.e. ef fyrirtæki ræður starfsmann í vinnu borgar það tryggingagjald. Það er umtalsverður kostnaður. Tryggingagjald er því skattur á atvinnurekendur. Ég held að lækkun tryggingagjalds um 0,5%, sem mundi kosta 20 milljarða á fjórum árum, væri til þess fallin að hvetja atvinnulífið til þess að framleiða atvinnu.

Aðrir kunna að sjá möguleika á því að hækka framlög til leigjenda, atvinnulausra o.s.frv. Þetta er náttúrlega bara spurningin um hvernig fólk mundi vilja ráðstafa 80 milljörðum. Hér erum við að ráðstafa 80 milljörðum.

Frá því að ég man eftir mér sem sjö, átta ára gutta hef ég búið í skuldaraþjóðfélagi. Það felst í því að alltaf er verið að bjarga skuldurum fyrir horn. Útgerðin ræður ekki við skuldirnar, þá á að fella þær niður með gengisfellingu eða hvernig sem það er nú gert. Hér er verið að fella niður skuldir. Ég man bara ekki eftir öðru en að menn séu að tala um að laga skuldir. Ég lifi í skuldaraþjóðfélagi. Það er enginn sem kveinar yfir því að innstæður séu að rýrna. Það finnst öllum sjálfsagt og eðlilegt og allt í lagi. Þær hafa verið að rýrna í tíu ár og það er allt í lagi, fólki er refsað fyrir að sýna ráðdeild og sparsemi, við gerum það og höfum gert það með aðstoð bankanna sem borga ekki nægilega háa vexti. Hins vegar eru bankarnir búnir að endurgreiða skuldaravexti, þeir höfðu efni á því. Þeir höfðu ekki efni á því að hækka innlánsvexti. Það sýnir líka að þeir eru búnir að aðlaga sig þessu skuldaraþjóðfélagi.

Hér er um miklar upphæðir að ræða af skatttekjum ríkissjóðs. Með hliðsjón af stöðu ríkissjóðs finnst mér ekki forsvaranlegt að afhenda þær einhverjum sem ekki þurfa á fénu að halda. Þá ég við öll þau heimili sem hafa í rauninni grætt á því að hafa keypt sér íbúð og fá stóran hluta af þessum bótum. Þetta breytir mjög litlu fyrir þá sem hafa tapað. Ég verð því miður að greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi.