143. löggjafarþing — 109. fundur,  14. maí 2014.

fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Lýðveldisins Kostaríka og Lýðveldisins Panama.

328. mál
[00:53]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kostaríka og Lýðveldisins Panama.

Um þetta mál er það að segja að hér er um að ræða EFTA-samning sem byggir að mörgu leyti á hefðbundnum viðmiðum fríverslunarsamninga og snýr einna helst að niðurfellingu eða lækkun tolla á iðnaðarvörur, landbúnaðarvörur og sjávarafurðir. Þessi samningur er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur, auk ákvæða um vöruviðskipti, ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála.

Ekki var ágreiningur innan nefndarinnar um afgreiðslu þessa máls og kom þar fram ríkur stuðningur við afgreiðslu þess. Einu athugasemdirnar sem bárust varðandi þetta mál, sem fólu í sér efasemdir um að rétt væri að samþykkja það, komu frá Alþýðusambandi Íslands og þar var vísað til þess að Alþjóðavinnumálastofnunin, ILO, hefði um árabil gert athugasemdir við Kostaríka og Panama um framkvæmd nokkurra grundvallarsamþykkta stofnunarinnar og taldi ASÍ að þar af leiðandi væri ekki tilefni til þess að fullgilda samninginn. Þess ber þó að geta að athugasemdir Alþýðusambandsins voru mildari í þessu máli en í tilviki Kólumbíu enda ástandið í þeim löndum sem hér er um að ræða, Kostaríka og Panama, betra en í Kólumbíu og víða annars staðar.

Í niðurlagsorðum nefndarinnar er bent á að í formálsorðum fríverslunarsamningsins árétti samningsaðilar virðingu fyrir grundvallarréttindum starfsmanna og meginreglum sem settar eru fram í samningum ILO. Þá er með fríverslunarsamningnum komið á fót sameiginlegri nefnd EFTA og þessara ríkja sem koma saman á tveggja ára fresti og fjalla um framkvæmd samningsins. Undirstrikað er að á þeim vettvangi gefist stjórnvöldum EFTA-ríkjanna tækifæri til að taka upp mál sem varða mannréttindi og verkalýðsmál gagnvart þessum ríkjum eftir því sem þurfa þykir.

Mat nefndarinnar og fleiri sem um málið hafa fjallað er að það felist möguleikar í þessum samningi. Viðskipti okkar við þessi ríki eru ekki mikil en með fríverslunarsamningi standa vonir til þess að unnt verði að auka þessi viðskipti, bæði Íslendingum og borgurum þessara ríkja til hagsbóta.

Undir nefndarálitið rita sá sem hér stendur og hv. þingmenn Ásmundur Einar Daðason, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Össur Skarphéðinsson. Hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Frosti Sigurjónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Óttarr Proppé voru fjarstaddir við afgreiðslu málsins en höfðu að öðru leyti tekið þátt í málsmeðferð og undirbúningi og gerðu ekki athugasemdir við þessa niðurstöðu.