143. löggjafarþing — 109. fundur,  14. maí 2014.

fríverslunarsamningur EFTA og Bosníu og Hersegóvínu og landbúnaðarsamningur sömu ríkja.

329. mál
[00:57]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Hér er fjallað um þingsályktunartillögu um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja EFTA-ríkjanna annars vegar og Lýðveldisins Bosníu og Hersegóvínu hins vegar og svo um leið tvíhliða landbúnaðarsamning milli Íslands og Lýðveldisins Bosníu og Hersegóvínu.

Hér er um að ræða hefðbundinn fríverslunarsamning samkvæmt mjög þekktu módeli EFTA. Talað er um í nefndarálitinu að um sé að ræða fríverslunarsamning af svokallaðri fyrstu kynslóð þar sem öll áherslan eða megináherslan er á vöruviðskipti á sviði iðnaðarvöru, landbúnaðarvöru, sjávarútvegs og sjávarútvegsafurða, en ekki sé samið sérstaklega um þjónustuviðskipti. Þó liggi fyrir yfirlýsingar og vilji aðila til að auka frelsi á því sviði.

Í þessu máli er einnig fjallað um sérstakan landbúnaðarsamning sem gerður er sem viðbótarsamningur með vísan til fríverslunarsamningsins. Þar er einnig um að ræða hefðbundið fyrirkomulag sem verið hefur í fríverslunarsamningum EFTA að samið er sérstaklega um viðskipti með landbúnaðarafurðir. Er tiltekið í nefndarálitinu að þetta leiði til þess að tollar á tilteknar landbúnaðarafurðir verði lækkaðir eða felldir niður og þess er sérstaklega getið að Bosnía og Hersegóvína muni fella niður tolla á heilum og hálfum lambaskrokkum og lækka tolla á öðrum lambakjötsafurðum.

Við afgreiðslu málsins komu ekki fram neinar athugasemdir eða gagnrýni á það að samningurinn næði fram að ganga eða þessir tveir samningar sem fylgjast að og var góður samhljómur í nefndinni um afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita auk þess sem hér stendur Silja Dögg Gunnarsdóttir, sem um leið var framsögumaður málsins þótt hún ætti þess ekki kost að mæla fyrir málinu á þessum þingfundi, Ásmundur Einar Daðason, Vilhjálmur Bjarnason og Össur Skarphéðinsson.

Árni Þór Sigurðsson, Frosti Sigurjónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Óttarr Proppé voru fjarstaddir við afgreiðslu málsins.