143. löggjafarþing — 110. fundur,  14. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[09:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það eru ýmsir kostir við það að greiða fyrir því að fólk geti sjálft lækkað skuldastöðu sína með eigin sparnaði og það er jákvætt í sjálfu sér. Sú útfærsla sem hér liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur hins vegar marga ágalla.

Í fyrsta lagi er málið seint fram komið og lítið færi gefist til að vinna það í þinginu. Nefndin hefur aukið mjög á umfang þess, en án þess að bera það aukna umfang undir umsagnaraðila eða leita álits á efnahagslegum áhrifum þess. Það er líka ljóst að þetta úrræði nær ekki til allra. Einungis þeir sem eru með atvinnutekjur geta nýtt sér stuðning af opinberu fé til þess að lækka skuldastöðu sína með þeim hætti sem frumvarpið kveður á um. Það er líka þannig að þeim mun hærri sem tekjur fólks eru, þeim mun meiri stuðning fær það af opinberu fé til þessa verkefnis. Það er auðvitað býsna öfugsnúið að við verjum opinberu fé til þess að styðja mest þá sem mest geta lagt fyrir til að lækka eigin skuldastöðu. Það er því óhjákvæmilegt að sitja hjá við afgreiðslu frumvarpsins og afgreiðslu (Forseti hringir.) breytingartillagna við það.