143. löggjafarþing — 110. fundur,  14. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[09:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mikið fagnaðarefni að þetta mál sé að klárast. Besti sparnaðurinn fyrir fólk í landinu er án nokkurs vafa að greiða niður skuldir sínar, á því er enginn vafi. Sömuleiðis er mikilvægt, virðulegi forseti, í efnahagslegu tilliti að tappa af fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna. Við vitum að það er mikil hætta á allra handa bólumyndun þegar fjárfestingarþörfin er jafnmikil og raun ber vitni.

Hér er í raun um að ræða stefnubreytingu. Það er verið að hjálpa fólki að eignast sitt húsnæði í stað þess að hvetja fólk til að skulda. Það eru öfugmæli, virðulegi forseti, þegar menn koma hér og tala um að við séum að missa framtíðarskatttekjur og taka ekki tillit til þess hvaða áhrif það hefur í þjóðfélagi þegar fólk er skuldlítið eða skuldlaust þegar kemur að lífeyrisaldri, fyrir utan að gera í þeim útreikningum ráð fyrir 3,5% raunávöxtun. Það er í besta falli bjartsýni, en í raun fullkominn barnaskapur.