143. löggjafarþing — 110. fundur,  14. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[10:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þar sem við erum að greiða atkvæði um þessi stóru og mikilvægu mál sem tengjast, bæði breytingin á sýslumönnunum og breytingin er varðar lögreglustjóra, vil ég þakka þingheimi innilega fyrir að klára þetta mál og þakka þingnefndinni og formanni hennar fyrir góða vinnu. Þetta er eins og þingheimur þekkir risastórt hagsmunamál fyrir landið okkar, sem mun breyta miklu og fela í sér ýmis ný tækifæri. Þingheimur hefur nokkrum sinnum andvarpað yfir þessum málum enda hafa þau verið ansi lengi til umræðu á hinu háa Alþingi, en nú er okkur að takast að afgreiða þau í mikilli og góðri sátt og fyrir það vil ég þakka. Ég vil líka þakka fyrrverandi innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni, fyrir að hafa undirbúið málið vel og tryggt að þegar ég kom að verkefninu var hægt að fara í það með þeim hraða sem nú hefur tekist, þannig að með samstilltu átaki í nokkur ár hefur þingheimi tekist að vinna þetta vel og farsællega.

Ég er viss um að út um allt land anda menn léttar yfir að loksins sé komin niðurstaða í þessi stóru mál.