143. löggjafarþing — 110. fundur,  14. maí 2014.

lögreglulög.

251. mál
[10:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þessi breytingartillaga er gerð til að koma til móts við athugasemdir Persónuverndar sem varða upplýst samþykki þeirra sem er flett upp við umsókn á starfi hjá lögreglunni. Ég vil taka það fram að það kom önnur athugasemd frá Persónuvernd um það að við ættum að gæta meðalhófs, eins og við eigum auðvitað alltaf að gera, og þar sem lagt var til að þetta gilti ekki um annað starfsfólk hjá lögreglunni, svo sem fólk í mötuneyti eða ræstitækna eða slíkt starfsfólk sem væri ekki með valdheimildir.

Ég vil taka það fram að ég er efnislega ósammála Persónuvernd þegar kemur að þessu. Ég tel réttmætt að afla þeirra upplýsinga um það starfsfólk vegna þess að um er að ræða störf þar sem er aðgangur að upplýsingum, aðgangur að fólki o.s.frv. Mér finnst fullt tilefni til þess að nefna það á þessum tímapunkti.