143. löggjafarþing — 110. fundur,  14. maí 2014.

fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

327. mál
[10:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér koma til atkvæðagreiðslu þrír fríverslunarsamningar sem gerðir hafa verið á vettvangi EFTA. Ég var því miður ekki viðstaddur á fundi utanríkismálanefndar þegar málin voru afgreidd og afstaða mín þar kemur ekki fram í nefndarálitum. Einn samningurinn sérstaklega, þ.e. samningurinn við Kólumbíu, hefur margsinnis verið til umræðu á Alþingi á undanförnum árum og Alþingi ekki treyst sér til þess að staðfesta hann. Það á sér stoð í stöðu mannréttindamála í Kólumbíu. Það liggur fyrir neikvæð umsögn frá Alþýðusambandinu um staðfestingu þessa samnings sérstaklega.

Hins vegar höfum við farið mjög rækilega yfir málið og kynnt okkur þá þróun sem átt hefur sér stað í Kólumbíu og meðal annars hvernig Alþjóðavinnumálastofnunin hefur tekið á þessum máli og sumpart breytt afstöðu sinni gagnvart málinu í Kólumbíu. Við vitum að stjórnvöld þar í landi hafa lagt sig fram um að vinna með forustu verkalýðsfélaga til þess að stuðla að friði og öryggi þar í landi. Við tökum að sjálfsögðu alvarlega (Forseti hringir.) þær athugasemdir sem koma frá lauþegahreyfingunni (Forseti hringir.) en við teljum að með markvissum einbeittum hætti (Forseti hringir.) sé verið að vinna að friði og sátt í landinu og ég tel þess vegna að nú séu forsendur til þess að fallast á staðfestingu þessa fríverslunarsamnings.