143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

svör við munnlegum fyrirspurnum.

[10:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp um fundarstjórn vegna þess að nú er að hefjast fyrirspurnatími á Alþingi. Ég lagði fram tvær fyrirspurnir í mars, annars vegar til hæstv. fjármálaráðherra og hins vegar til hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Sú sem ég lagði fyrir fjármálaráðherra hefur núna beðið í rúma tvo mánuði og ég veit að hæstv. fjármálaráðherra hefur á því tímabili verið í salnum að svara fyrirspurnum en einhverra hluta vegna hefur minni spurningu ekki verið svarað.

Ég geri við þetta athugasemdir vegna þess að í þingsköpum segir skýrt og klárt að að jafnaði skuli svara spurningum innan tveggja vikna, munnlegum fyrirspurnum frá alþingismönnum.

Mér finnst tveir mánuðir yfirdrifið og núna erum við að ljúka störfum. Fyrirspurn mín snýr að málefnum verðtryggingar og var ósköp einföld og það ætti ekki að vera erfitt fyrir hæstv. ráðherra að koma hingað og svara henni vegna þess að hún snýst um pólitíska stefnumörkun.

Ég hef látið breyta þessum fyrirspurnum báðum yfir í skriflegar fyrirspurnir. Við hljótum að gera kröfu um að fá ítarleg og góð svör við þeim spurningum sem við þurfum að breyta yfir í skriflegar úr munnlegum vegna þess að þegar maður leggur upp með fyrirspurnina gengur maður út frá því að hún sé munnleg en ekki skrifleg.

Það er þá spurning hvort ég fái að bæta við hana (Forseti hringir.) þannig að hún verði sem skýrust sem skrifleg fyrirspurn.