143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

snjómokstur á Fjarðarheiði.

578. mál
[10:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem hlýtur að eiga erindi við okkur jafnt að sumri sem vetri. Eins og við vitum var nýliðinn vetur mjög snjóþungur víða um land og sérstaklega á því svæði sem hér er til umræðu. Til að svara spurningunni beint, hvort það komi til álita að hafa sérstakt snjóruðningstæki á Seyðisfirði á veturna til að auðvelda snjómokstur á Fjarðarheiði og flýta honum: Já, það kemur auðvitað til álita. Sérfræðingar sem halda utan um þessi mál fyrir okkar hafa hins vegar talið að undanfarin ár — reyndar var síðasti vetur sérstaklega snjóþungur eins og ég nefndi — hafi verið nægilega góð þjónusta við vetraraðstæður fram að þessu og ekki hafi verið ástæða til þess að auka frekar við búnað. Því hafi ekki verið teknar þær ákvarðanir sem hv. þingmaður nefnir hér að beri að skoða.

Við vitum að þegar þörf er á er unnið við snjómokstur á Fjarðarheiði, bæði frá Egilsstöðum og frá Seyðisfirði. Frá Egilsstöðum er unnið með öflugum snjóblásara þegar aðstæður eru eins og þær voru síðastliðinn vetur. Við mokstur frá Seyðisfirði er notaður veghefill í eigu Seyðisfjarðarbæjar sem er búinn sérstökum búnaði frá Vegagerðinni. Við aðstæður eins og þær voru í vetur nýttist það tæki því miður ekki sem skyldi.

Aðstæður undanfarin ár hafa hins vegar verið þannig, eins og ég nefndi áðan, að undanskildum þeim vetri sem nú er nýliðinn, að ekki hefur verið þörf á sérstökum búnaði og þau tæki sem hafa verið til staðar hafa að mati okkar sérfræðinga að mestu dugað til að halda heiðinni opinni. Það er sú staða sem við höfum búið við.

Hins vegar, eins og komið hefur ítrekað fram í umræðum hér á Alþingi um vetrarþjónustu Vegagerðarinnar og það mál var til dæmis rætt sérstaklega í lok mars ef ég man rétt, er það markmið ríkisstjórnarinnar og að sjálfsögðu Vegagerðarinnar, og ég veit að um það er góð samstaða í þessum sal, að þörf sé á að auka vetrarþjónustu á flestum svæðum landsins.

Það þarf að auka hana umtalsvert og meira en okkur tekst að gera í þeirri samgönguáætlun sem nú liggur fyrir þinginu, en árlegur kostnaður vegna vetrarþjónustu Vegagerðarinnar er núna um 2,5 milljarðar. Á næsta ári er fyrirhugað að bæta við um 500 millj. kr. þannig að um 3 milljörðum verði varið í vetrarþjónustu á hverju ári. Þetta er umtalsverð aukning en þó ekki næg.

Ég get fullyrt það og heiti hv. þingmanni því að í þessari aukningu verður að sjálfsögðu sérstaklega litið til þessa svæðis, enda þekkjum við öll þær brýnu aðstæður sem þar eru og einnig þá umræðu sem hefur verið um að breyta samgöngum á því svæði til að auka tækifæri þess. Þess vegna eru ákveðnar rannsóknir í gangi hvað það varðar eins og þingheimur þekkir.

Ég vil í lokin ítreka það sem ég hef áður sagt á Alþingi að ég treysti faglegu mati Vegagerðarinnar hvað þetta varðar og til að meta aðstæður hverju sinni og eftir fremsta megni tryggja góða, öfluga og örugga þjónustu. Til að svara alveg beint út kemur það auðvitað til álita, og það hefur verið rætt, eins og hv. þingmaður veit sjálfsagt jafn vel og ég, að hafa sérstakt snjóruðningstæki á Seyðisfirði á veturna til að auðvelda snjómokstur. Á undanförnum árum hefur Vegagerðin ekki talið þess þörf og menn hafa kannski heldur ekki haft tök á því fjárhagslega, svo maður segi hlutina alveg eins og þeir eru.

Ég vonast innilega til þess að okkur takist að gera eins vel og mögulegt er í framtíðinni og ég veit að þetta svæði er undir stöðugu eftirliti Vegagerðarinnar.