143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

snjómokstur á Fjarðarheiði.

578. mál
[10:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Alþingi Íslendinga er oft og tíðum gagnrýnt fyrir að bregðast ekki við fyrr en eftir á. Nú hefur hv. þm. Kristján L. Möller undirstrikað þá framsýni sem við höfum alltaf þekkt og búist við af honum. Hann hefur horft í stráin og skyggnst í skýin og komist að því að undir núverandi ríkisstjórn megi búast við mjög hörðum snjóavetri á Austfjörðum á næsta ári. Ég er sammála honum. Ég tek undir það sem hann segir um að menn þurfi að búa sig undir harðan snjóavetur og vera viðbúnir.

En ég kem hingað aðallega til að taka undir með honum og hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur, að framtíðin er auðvitað sú að gera göng undir Fjarðarheiði. Það er líka hagsmunamál okkar Reykvíkinga sem þurfum að ferðast um landið. Ég ætla ekki að segja hvenær ætti að gera það en áður hefur komið fram að hæstv. innanríkisráðherra er áhugamanneskja um jarðgöng. Þess vegna langar mig að spyrja hana hvernig undirbúningi og áætlunum er háttað um göng undir Fjarðarheiði til að hv. þm. (Forseti hringir.) Kristján L. Möller og Valgerður Gunnarsdóttir þurfi ekki að deila hér á hverjum einasta vetri um snjókomu komandi ára.