143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

snjómokstur á Fjarðarheiði.

578. mál
[10:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör og sömuleiðis þeim þingmönnum sem um þetta hafa fjallað, alveg sérstaklega þingmanni Reykjavíkurkjördæmis Össuri Skarphéðinssyni sem er mjög mikill áhugamaður um jarðgangagerð. Ég hef stundum sagt það, þegar við erum að ferðast um landið í kosningaferðalögum eða fundaferðalögum, að við megum eiginlega ekki keyra yfir heiði án þess að hv. þingmaður leggi til að þar verði boruð jarðgöng. Sá sem hér stendur hefur lent í því hlutverki að þurfa að halda aðeins aftur af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni hvað það varðar.

Að öllu gamni slepptu ítreka ég þakkir til ráðherra sem segir að til álita komi að skoða þetta. Ég tel að Vegagerðin og Seyðisfjarðarkaupstaður eigi að setjast niður yfir þetta og skoða þennan möguleika. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að Seyðisfjarðarkaupstaður á veghefil sem hann notar til að moka götur í bænum. Það er ekki hentugasta tækið til að fara upp á heiði þegar mikill snjór er. Þess vegna ímynda ég mér eða hugsa upphátt að ef í útboði, væri það sett fram, sem auðvitað kostar peninga, að almennilegt tæki, snjóblásari, öflugt tæki, skuli staðsett á Seyðisfirði, hvort Seyðisfjarðarkaupstaður mundi ekki jafnframt kaupa þjónustu af þeim aðila. Það mundi auðvelda þetta, koma til móts við þann sem staðsetur tækið, en það mundi líka flýta mikið fyrir opnun á heiðinni og auka umferðaröryggi og vetrarþjónustu sem er mjög mikið atriði.

Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að nota sumarið og haustið vel til að kanna þetta í samvinnu við Seyðfirðinga. En vegna þess að Seyðisfjarðargöng bar á góma vil ég taka undir það sem hefur verið sagt, og ég hef sagt það, að það er auðvitað framtíðarlausnin. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði hvenær mætti byrja. Ég tel ágætisvegvísi að stefna að því að byrja á Seyðisfjarðargöngunum um leið og við opnum Norðfjarðargöng, að við hv. þingmaður og fleiri förum austur til að fagna opnun Norðfjarðarganga 2017.