143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

Vatnajökulsþjóðgarður.

422. mál
[10:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst og fremst að nýta þessa fyrirspurn til að forvitnast um stöðu Vatnajökulsþjóðgarðs að tvennu leyti. Eins og kunnugt er átti stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sér langan aðdraganda. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var helsti hvatamaðurinn að því máli sem var í meðförum Alþingis árum saman, fyrst eftir að þingsályktunartillaga var lögð fram um stofnun þjóðgarðsins sem síðan var til meðferðar í þinginu og lögð fram nokkrum sinnum. Að lokum var samþykkt frumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð og gert að lögum árið 2007. Síðan þá hefur þjóðgarðurinn dafnað vel, mundi ég segja. Það var gríðarlega mikilvægur áfangi í náttúruvernd á Íslandi þegar þessi þjóðgarður var stofnaður, sem nær yfir verulegan hluta landsins og mörg einstök svæði.

Það sem er sérstakt við þjóðgarðinn er að stjórnskipulag hans er með öðrum hætti en annarra þjóðgarða. Þar eru ákveðin svæðisráð sem sveitarstjórnir eiga aðkomu að og voru ákveðinn liður í því að sátt næðist um að gera þetta stóra og mikilvæga svæði að þjóðgarði.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um er tvennt, í raun tvær fyrirspurnir. Í fyrsta lagi: Hvernig er eiginlega háttað stöðu áframhaldandi vinnu við þróun Vatnajökulsþjóðgarðs? Hér var samþykkt stjórnunar- og verndaráætlun 2013. Hún er ávallt í ferli, þ.e. hún er endurskoðuð á nokkurra ára fresti, og eitt af því sem hefur verið til umræðu er stækkunarmöguleikar þjóðgarðsins ekki síst til norðurs. Lónsöræfi hafa þar verið nefnd. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi eitthvað komið til skoðunar. Hvert er hans mat á þeim stækkunarmöguleikum? Þar eru nærliggjandi svæði í kringum þjóðgarðinn sem eru líka gríðarlega mikilvæg.

Hins vegar vil ég spyrja hæstv. ráðherra um stjórnarfyrirkomulagið. Það sem vakti athygli mína í tillögum hagræðingarhópsins, sem voru talsvert hér til umræðu fyrr í vetur, var þjóðgarðastofnun. Það er ekki ný hugmynd að stjórn þjóðgarða í landinu sé fyrir komið í einni stofnun. Eins og staðan er nú hefur þetta verið mismunandi. Þingvellir hafa, eins og kunnugt er, verið sérstaklega undir forsætisráðuneytinu, rökstutt með því að þar sé ekki aðeins mjög mikilvægt náttúrusvæði heldur líka sögulega mikilvægt svæði fyrir lýðveldið Ísland og upphaf Alþingis. Síðan eru aðrir þjóðgarðar, Snæfellsþjóðgarður til að mynda, og svo er Vatnajökulsþjóðgarður með þessi svæðisráð.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það standi til að endurskoða þetta fyrirkomulag í takt við tillögur hagræðingarhópsins eða hvort hann telji núverandi fyrirkomulag hið besta til framtíðar. Stendur yfir einhver vinna í þeim málum?