143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

Vatnajökulsþjóðgarður.

422. mál
[10:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýr svör. Eins og ég skil það getum við sagt að unnið sé jafnt og þétt að stækkun þjóðgarðsins, þó þannig að svæðið geti staðið undir því. Ég tel það ábyrga stefnu. Ég tel líka jákvætt að heyra hið mjög svo jákvæða viðhorf hæstv. ráðherra í garð þessa merkilega þjóðgarðs sem hefur ekki aðeins verndargildi í sjálfum sér heldur hefur líka reynst uppspretta nýrra atvinnutækifæra og breyttrar atvinnustefnu á þessu svæði.

Ég fagna því að það standi til að ljúka við stækkun til norðurs í samráði við Norðurþing og reikna með að sú þróun haldi áfram.

Hvað varðar stjórnarfyrirkomulagið skil ég hæstv. ráðherra svo að til standi að leggja fram frumvarp sem geri í grundvallaratriðum ráð fyrir óbreyttu stjórnskipulagi með skýrari skýringum og skerpingum, eins og hægt væri að kalla það. Ég hef áhuga á að vita hvort við munum eiga von á því næsta vetur.

Má ég þá inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann sé þar með í raun og veru að hafna tillögu hagræðingarhóps um þjóðgarðastofnun þar sem allir þjóðgarðar fari undir eina stofnun eða hvort sú tillaga hafi verið skoðuð og afgreidd út af borðinu? Það er mikilvægt fyrir okkur þingmenn að vera upplýst um það.

Svo langar mig að lokum að nota minn stutta tíma til að nefna, af því að ég rifjaði það upp að aðdragandi þessa máls tók mörg ár, að hér hefur verið mælt fyrir öðru máli nokkrum sinnum sem ég gerði síðast, þingsályktunartillögu um stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs sem hefur áður verið flutt af öðrum hv. þingmönnum, síðast af hv. fyrrverandi þingmanni Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Ég mun líklega flytja það aftur í byrjun næsta vetrar og vonast svo sannarlega til að með seiglunni muni sú tillaga líka hljóta brautargengi eins og tillagan um Vatnajökulsþjóðgarð hlaut á sínum tíma. Það væri svo sem gaman að heyra líka viðhorf hæstv. ráðherra til þess þó að hann hafi ekki verið sérstaklega spurður um það í skriflegri fyrirspurn.