143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

losun gróðurhúsalofttegunda.

449. mál
[10:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Loftslagsbreytingar eru líklega stærsta viðfangsefni alþjóðasamfélagsins á pólitískum vettvangi nú um stundir og verða það á næstu árum og áratugum. Þar berast óhugnanlegar og óþægilegar fregnir af bráðnun íss, nú síðast á Suðurskautslandinu. Við höfum líka fylgst með þróun mála á norðurskautinu og nánast allar þær skýrslur sem hafa verið gefnar út staðfesta að losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum sé helsti áhrifavaldurinn í þeim miklu umhverfisbreytingar sem við erum farin að sjá, bæði hvað varðar hækkandi sjávarborð og líka auknar öfgar í veðurfari.

Ríkisstjórnir heimsins eru að setja þessi mál á dagskrá. Ég hafði raunar fyrr í vetur óskað eftir sérstakri umræðu við hæstv. forsætisráðherra um stefnumótun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum því að það er ekki óalgengt að ríkisstjórnir sem heild setji sér slík markmið. Málið er af slíkri stærðargráðu að það skiptir máli að allir vinni saman að rannsókn á vísindasamfélagi, taki aktífan þátt í stefnumótuninni, að gerð sé markviss áætlun um hvernig megi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hvernig eigi að bregðast við þeim breytingum sem munu örugglega verða. Þetta er eitt af þeim málum sem kannski engum finnst gaman að ræða því að þetta er ekkert gleðiefni og fátt jákvætt, a.m.k. sem ég sé, við þessar breytingar.

Nú liggur fyrir, og mér finnst gott að fá tækifæri til að ræða þetta við hæstv. umhverfisráðherra, að við erum með staðfesta aðgerðaáætlun í loftslagsmálum frá árinu 2010 sem meðal annars snerist um að innleiða viðskiptakerfi með losunarheimildir, leggja á kolefnisgjald, breyta kerfi skatta og gjalda á bíla og eldsneyti, breyta notkun ríkis og sveitarfélaga þannig að þau skipti yfir í sparneytin og vistvæn ökutæki, efla göngur, hjólreiðar og almenningssamgöngur sem valkost, nýta lífeldsneyti á fiskiskipaflotann sem er mjög stórt mál, rafvæða fiskimjölsverksmiðjur, auka skógrækt og landgræðslu, endurheimta votlendi og efla rannsóknir og nýsköpun í loftslagsmálum.

Mig langar að inna hæstv. ráðherra um hvaða sóknarfæri hann sér einna helst í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, hvar áherslupunktarnir verða í því og hver framtíðarsýn hans er í þeim efnum. Það er mín skoðun að ef við ætlum að vera reiðubúin undir þær breytingar sem væntanlega munu verða og reiðubúin að taka ábyrgð á því að leggja eitthvað raunverulegt af mörkum til að hægja á þessari þróun þurfi rannsókna- og vísindasamfélagið að vera mjög öflugt. Þetta snýst ekki bara um það sem ég nefndi hér, þ.e. hnattrænu áhrifin, heldur munu áhrifin líka verða mjög staðbundin. Við erum þar til að mynda að tala um súrnun sjávar þar sem þörf er á aukinni vöktun á lífríkinu og er alveg gríðarlegt staðbundið hagsmunamál fyrir fiskveiðiþjóðina Íslendinga.

Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir framtíðarsýn hans og því hvað hann telur mikilvægustu þættina í þessum efnum.