143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

losun gróðurhúsalofttegunda.

449. mál
[11:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mér heyrist framtíðarsýn hans vera mjög í takt við þá aðgerðaáætlun sem hér hefur verið samþykkt og að áfram verði unnið samkvæmt þeim áherslupunktum sem þar voru settir.

Mig langar þá aðeins að taka þetta yfir á stærra svið. Ég nefndi áðan að bæði geta afleiðingar loftslagsbreytinga orðið geigvænlegar fyrir hinn stóra heim en þær geta líka haft mjög ógnvænleg staðbundin áhrif á okkur. Ég nefndi súrnun sjávar, svo dæmi sé tekið. Við Íslendingar höfum fyrst og fremst einblínt á þau tækifæri sem við teljum felast í siglingum við norðurskautið. Á það hefur verið bent að þar kunni að vera að styttri siglingaleiðir dragi úr losun á heimsvísu en auki mjög staðbundna mengun hér á þessu svæði sem getur líka haft áhrif á fiskimið okkar.

Þess vegna tel ég að mjög mikilvægt sé að við sem smáþjóð nýtum þann mannauð sem við eigum í vísindum og rannsóknum. Mig langar að vita hvort hæstv. ráðherra, sem ég veit að á sæti í Vísinda- og tækniráði sem leggur línurnar fyrir stefnumótun okkar í rannsóknum og vísindum, telji ástæðu til þess í ljósi stöðunnar á alþjóðavettvangi að við setjum aukinn kraft í þær rannsóknir og þau vöktunarverkefni sem þarf að sinna til þess að við getum hreinlega annars vegar lagt okkar af mörkum á alþjóðavettvangi til þess bæði að draga úr losun hér heima og erlendis, hæstv. ráðherra fór yfir vel heppnuð dæmi frá Jarðhitaskólanum og Landgræðsluskólanum, og að við getum líka tekið aukinn þátt í umræðunni á alþjóðavettvangi byggt á rannsóknum okkar og vísindamönnum okkar.

Mér hefur verið þetta talsvert hugleikið því að nú setur Ísland sér tilteknar markáætlanir í rannsóknum og vísindum, eins og hæstv. ráðherra þekkir, og þegar viðfangsefnin sem blasa við eru jafn brýn og það sem hér um ræðir velti ég fyrir mér hvort hæstv. ráðherra telji það ekki allrar skoðunar vert að við setjum aukinn kraft í þær rannsóknir sem lúta að loftslagsbreytingum og veðurfarsbreytingum.