143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

breyting á reglugerð nr. 785/1999.

462. mál
[11:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæta yfirferð og skýr svör fyrir sinn hatt, ef svo má að orði komast. Eftir stendur í raun, eins og fram kemur í máli hæstv. ráðherra, að hann er einfaldlega ósammála Umhverfisstofnun og þarna vega sjónarmið stofnana og þeirra aðila sem að koma misþungt. Mig langar bara að skerpa á því við hæstv. ráðherra hvort hann sé þá beinlínis ósammála því sem Umhverfisstofnun telur að gæti dugað, þ.e. að nýta grenndarkynninguna sem leið þrátt fyrir þá meginreglu sem fram kemur í reglugerðinni fyrir breytingu. Er að mati hæstv. ráðherra ekki unnt að útfæra eða nýta grenndarkynninguna sem það tæki sem Umhverfisstofnun gerir ráð fyrir eða vísar í í máli sínu?

Það ætti að vera brúklegt verkfæri einmitt til þess að ná þessum markmiðum þar sem fyrst og fremst er um að ræða almannahagsmuni sem gerir það að verkum að maður hrekkur við þegar svona breytingar eru gerðar, að þeir kunni að vera fyrir borð bornir. Ég mundi vilja biðja hæstv. ráðherra að freista þess að sannfæra mig enn betur um það en hann gerði í sínu fyrra svari að hagsmunir almennings væru tryggðir í þeim efnum og þá með hvaða hætti aðkoma almennings er tryggð þegar um er að ræða starfsleyfi þar sem deiliskipulag er ekki fyrir hendi og þar sem undanþága hefur verið veitt. Best væri auðvitað ef hæstv. ráðherra gæti nefnt mér dæmi um starfsemi sem fellur undir þá þörf fyrir breytingu á reglugerð þeirri sem hér er til umræðu.