143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

landsskipulagsstefna.

464. mál
[11:35]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Umhverfis- og auðlindaráðherra tók á árinu 2013 ákvörðun um að hefja vinnu við gerð landsskipulagsstefnu til tólf ára í samræmi við ákvæði skipulagslaga, nr. 123/2010. Í því skyni var Skipulagsstofnun falið með bréfi, dags. 23. október 2013, að hefja vinnu við gerð tillögu að landsskipulagsstefnu. Gert er ráð fyrir að Skipulagsstofnun skili ráðherra tillögu sinni í desember á þessu ári og að tillaga til þingsályktunar að landsskipulagsstefnu 2015–2026 verði lögð fram á vorþingi 2015.

Þær áherslur sem gert er ráð fyrir að fram komi í tillögu til þingsályktunar að landsskipulagsstefnu eru að meginstefnu þær sömu, og svarar það þá fyrirspurn hv. þingmanns um að verið er að nota það sem fyrir er og var í fyrstu tillögu að landsskipulagsstefnu sem ekki náði þó fram að ganga á Alþingi. Stefna um skipulagsmál miðhálendisins skal ævinlega vera í slíkri stefnu, síðan stefna um búsetumynstur og dreifingu byggðar og stefna um skipulag á haf- og strandsvæðum. Gert er ráð fyrir að byggt verði á þeim gögnum og sjónarmiðum sem fram komu við vinnslu fyrri tillögu að landsskipulagsstefnu sem og á uppfærðum gögnum um stöðu og þróun skipulagsmála og fyrirliggjandi stefnu stjórnvalda um landnotkun.

Það hafði reyndar unnist mismunandi mikið innan þessara þriggja sviða.

Í því sambandi er lögð áhersla á að tillögur að stefnunni verði markvissar og forsendur þeirra skýrar til að auðvelt verði að framfylgja stefnunni. Auk þessara þriggja áherslna mun tillaga að landsskipulagsstefnu fjalla um landnotkun og landnýtingu í dreifbýli og er gert ráð fyrir að greind verði þörfin fyrir og gerðar eftir atvikum tillögur um aðgerðir stjórnvalda til að stuðla að sjálfbærri landnýtingu í dreifbýli.

Einn liður í vinnu Skipulagsstofnunar við gerð tillögu að landsskipulagsstefnu er samantekt á lýsingu á verkefninu. Í lýsingunni er greint frá viðfangsefnum landsskipulagsstefnunnar og hvernig fyrirhugað er að standa að gerð hennar. Lýsingin var kynnt með auglýsingu í febrúar síðastliðnum. Einnig voru haldnir sex kynningar- og samráðsfundir víða um land þar sem lýsingin var kynnt og leitað eftir hugmyndum fundarmanna, heimamanna, um áherslur landsskipulagsstefnu. Þátttaka á þessum fundum var góð og fjöldi hugmynda kom fram, en þær verða gott veganesti fyrir mótun landsskipulagstillögunnar. Einnig hefur verið settur á stofn samráðsvettvangur þar sem yfir hundrað aðilar hafa skráð sig til þátttöku.

Staða vinnunnar er sú að Skipulagsstofnun vinnur nú úr fram komnum ábendingum og athugasemdum við lýsinguna. Gert er ráð fyrir að stofnunin muni í júníbyrjun kynna skýrslu um helstu valkosti sem til greina koma við mótun landsskipulagsstefnunnar. Stofnunin mun síðan í október næstkomandi kynna tillögu sína að landsskipulagsstefnu sem þá fer í átta vikna kynningar- og umsagnarferli áður en stofnunin skilar endanlegri tillögu sinni til ráðherra.

Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn og að fá að ræða þetta mikilvæga málefni sem er þeim ráðherra sem hér stendur mjög hugleikið, mér finnst þetta mjög mikilvægur málaflokkur. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að tímalínan í þessu efni er mjög þröng. Þetta er vissulega flókið verkefni og auðvitað er verið að nýta það sem fyrir er. Það hjálpar til við vinnsluna að menn þekkja rennslið. Fjölmargir koma nú að þessu verki í annað sinn og hafa verið tilnefndir af viðkomandi stofnunum, sveitarfélögum eða öðrum. Það er mjög metnaðarfullt að reyna að ná þessu í gegn á þessum tíma. Starfsfólk Skipulagsstofnunar er mjög öflugt í vinnu sinni og aðrir þeir er að þessu koma. Ég trúi því að þetta muni ganga eins og til er ætlast. Verkið er á réttu róli, að minnsta kosti eins og er, og hefur tekist að halda alla tímafresti.