143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

kortaupplýsingar.

465. mál
[11:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Um síðustu áramót var tekin sú ákvörðun að gera stafræn kort og landupplýsingar Landmælinga Íslands gjaldfrjáls en gögnin eru eins og kunnugt er notuð við ýmis verkefni á vegum stofnana ríkisins, svo sem við eignaskráningu, skipulagsmál, náttúruvernd, náttúruvá, orkumál, rannsóknir og opinberar framkvæmdir, en það sem var kannski mikilvægari forsenda til grundvallar þessari ákvörðun var að þær upplýsingar gagnast líka almenningi og ekki síður fyrirtækjum með margvíslegum hætti.

Í fréttatilkynningu sem kom fram með þeirri ákvörðun um áramótin síðustu, sem er á grundvelli ákvörðunar þeirrar sem hér stendur, kom fram að með því að gera stafræn kort og landupplýsingar gjaldfrjáls væri almenningi á Íslandi tryggður greiður aðgangur að upplýsingum um umhverfi og náttúru landsins.

Aðgengi að þeim gögnum hefur aukist verulega með tilkomu internetsins og dæmi er notkun Google-fyrirtækisins á kortum og landupplýsingum en fyrir nokkrum árum voru kynntir þjónustuvefirnir Google Earth og Google Maps og báðar þær vefsíður byggja að mestu leyti á gjaldfrjálsum gögnum og skýrir það hversu ónákvæmt kort fyrirtækið notaði áður af Íslandi. Þarna er um að ræða verulega breytingu.

Þegar ég segi áramótin síðustu er ég að tala um síðustu áramót þeirrar sem hér stendur í embætti því að við erum að tala um áramótin 2012/2013. Nú er komin nokkur reynsla á þetta fyrirkomulag og því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hver sú reynsla sé. Ég hef fengið af því óformlegar fregnir að þessi ákvörðun hafi í raun og veru skilað sér í gríðarlega miklum vexti fyrirtækja sem reiða sig á slík gögn. Þessi grunnur og opnun þessara mikilvægu gagna, sem skiptir auðvitað miklu máli að halda til haga, hafa orðið til fyrir tilverknað almannavaldsins. Þar með má segja að samfélagið eigi þau gögn og óeðlilegt sé annað en að samfélagið hafi þar með aðgang að þeim.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti upplýst okkur og þingið um það hvort því markmiði hafi verið náð, þ.e. hvort þær væntingar sem lágu til grundvallar ákvörðuninni hafi verið á rökum reistar á sínum tíma og hvort við sjáum þess mælanleg dæmi að ákvörðunin hafi verið til góðs fyrir íslenskt atvinnulíf og þróun og ýmiss konar nýsköpun í atvinnulífinu.