143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

fækkun svartfugls.

466. mál
[12:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þetta var athyglisverð fyrirspurn hjá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur og að sönnu svar hæstv. ráðherra athyglisvert líka. Mín afstaða til þessara sjófuglastofna er hin sama og til annarra auðlinda hafsins og auðlinda almennt hvað nýtingu varðar. Það á að nýta þá með sjálfbærum hætti og ef þeim er hætta búin vegna töku mannsins á föngum úr stofnum þeirra verða menn að bregðast við, alveg eins og gagnvart fiskinum í hafinu, og draga úr nýtingu. Þetta er sama afstaða og ég hef til dæmis gagnvart nýtingu hvalastofna. Ég tek reyndar eftir því varðandi lundastofninn að hann hefur verið í miklu betri stöðu á norðlægari stöðum eins og Grímsey á Steingrímsfirði og Djúpeyjum.

Það er eitt sem mig langar að færa inn í þessa umræðu og nefna sérstaklega og það er ný skýrsla um uppsöfnun lífrænna þrávirkra efna. Nýlega hafa menn fundið út að magn þeirra í skurnum eggja fer hækkandi og það getur haft áhrif á frjósemi. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að beita sér fyrir frekari rannsóknum á því.