143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

fækkun svartfugls.

466. mál
[12:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég held sjálf að það allra mikilvægasta sé að safna þekkingu og að vöktun og rannsóknir séu fullnægjandi. Það kom mér á óvart þegar ég gegndi embætti umhverfisráðherra að átta mig á því hversu gloppótt þekking okkar á lífríkinu á Íslandi í raun og veru er og miklu gloppóttari en ég hafði haldið. Þess vegna þurfum við að gæta þess að fjármagna með myndarlegum hætti grunnrannsóknir, rannsóknir sem eru ekki af einhverju tilteknu tilefni heldur einfaldlega það að kortleggja og vakta síðan gróður og annað lífríki.

Hæstv. ráðherra segir réttilega að líkur séu til þess að ástæðurnar tengist loftslagsbreytingum en að sama skapi vitum við það ekki alveg. Við vitum ekki nákvæmlega hverjar ástæðurnar eru og þar með vitum við heldur ekki nákvæmlega hver viðbrögðin eiga að vera. Það er kannski vandi okkar.

Ég fagna því þó að hæstv. ráðherra telur hér upp nokkrar staðbundnar aðgerðir sem sé rétt að fara í, einfaldlega með varúðarsjónarmið að leiðarljósi eins og ég skil hann. Staða þessara stofna er einfaldlega það alvarleg að ekki verður við annað unað en að reyna að minnsta kosti að beita þeim aðferðum sem við getum þó að þær geti verið mismarkvissar vegna þess að við vitum ekki nákvæmlega hvað er á ferðinni. Maðurinn er kannski ekki stór faktor í þessu en við vitum það í raun og veru ekki, hann gæti verið það.

Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, bara í prinsippinu: Hvaða rök telur hann að jafnaði að nægi fyrir veiðibanni á tilteknum tegundum?