143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

staða sóknaráætlunar skapandi greina.

461. mál
[12:18]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir þessa mikilvægu fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Það er ekkert launungarmál að við hjá Bjartri framtíð leggjum gríðarlega áherslu á fjárfestingu í skapandi greinum — ég segi: fjárfestingu — enda varðar það einmitt skynsamlegt langtímaplan sem við köllum svo sárlega eftir.

Skapandi greinar skapa tekjur til framtíðar og ganga ekki á takmarkaðar náttúruauðlindir. Það er skynsamleg fjárfesting, enda greinar sem geta vaxið og skapað ný tækifæri í útflutningi og stuðlað að fjölbreyttara atvinnulífi sem er okkur svo mikilvægt. Það hefur farið mikil vinna í það undan farin ár að kortleggja þessi sóknarfæri og eins hverju þau skili í þjóðarbúið. Reynslan sýnir að fjármunir, sem varið er í samkeppnissjóði á sviði vísinda, tækni og skapandi greina, skila sér margfalt til baka. Þess vegna er sárt að horfa upp á að sífellt þrengi meira að þeim.

Við hvetjum hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra eindregið til að standa vörð um sókn og fjárfestingu í skapandi greinum, enda eru skapandi greinar framtíðin.