143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

staða sóknaráætlunar skapandi greina.

461. mál
[12:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég verð þó að lýsa ákveðnum vonbrigðum með þau vegna þess að ég taldi spurningarnar nokkuð skýrar. Ég var ekki að spyrja um myndbönd eða djörfung og dug eða neitt slíkt, ég var einfaldlega að spyrja: Hverjir hafa tekið þátt í vinnunni? Hverjir hafa verið teknir að borðinu? Þá er ég ekki að tala um reglubundna fundi með Bandalagi íslenskra listamanna og athugasemdir sem það gerir við einhverjar hugmyndir ráðherra eða óformlega fundi með ráðherra. Hæstv. forsætisráðherra talar um þetta í áramótaávarpi eins og það sé skýrt verkefni í gangi, en hæstv. ráðherra svarar hér eins og þetta sé bara tilfallandi spjall eða tilfallandi uppákomur en ekki stefnumörkun eins og stjórnvöld ættu auðvitað að vera með og hæstv. forsætisráðherra gaf sannarlega fyrirheit um í áramótaávarpi sínu.

Spurning mín um hvenær stjórnarandstaðan yrði tekin að borðinu var líka mjög skýr. Ég mundi fagna því ef hæstv. ráðherra gerði aðra atlögu að því að svara spurningum mínum. Hvert er erindisbréfið? Hvað stendur til? Hvert er verkefnið? Þetta er ekki bara spjall. Ég vona að þetta snúist ekki um að spjalla og skoða myndbönd, heldur snúist þetta um raunverulega metnaðarfulla stefnumörkun í þessari gríðarlega mikilvægu atvinnugrein og hluta af íslensku samfélagi. Hverjir hafa komið að borðinu? Hver er tímalínan og framtíðarsýn ráðherrans í þeim efnum? Hvenær verður stefnan síðan lögð fram? Og hvenær, vonandi fyrir þann tímapunkt, kemur stjórnarandstaðan að borðinu?