143. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2014.

almennar stjórnmálaumræður.

[19:44]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Á þessu fagra vori er auðvelt að fyllast bjartsýni. Ísland getur verið vettvangur kraftmikils atvinnulífs og gróandi þjóðlífs. Ef við grípum tækifærin getum við búið við rismeira samfélag og betri lífskjör hér en annars staðar. Til þess þarf ríkisstjórn sem markar rétta stefnu. Á það hefur nokkuð skort í vetur. En íslenskt samfélag hefur breyst. Ríkisstjórn með vonda stefnu ræður ekki öllu lengur. Við sáum dæmi um það í vetur.

Ríkisstjórnin lagði fram tillögu um að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Sú tillaga var óskynsamleg og óþörf, hún lokaði leiðum fyrir þjóðina að ástæðulausu og gekk gegn skýrum loforðum um að þjóðin fengi að ákveða hvernig samskiptum okkar við Evrópusambandið yrði háttað. Við sögðum saman: Nei. Verkalýðshreyfingin og fyrirtækin voru einhuga í andstöðu sinni. Mótmæli tugþúsunda, undirskriftir tæplega 54 þús. kjósenda, skýr niðurstaða í hverri könnuninni á fætur annarri sendi stjórnmálamönnunum skýr skilaboð um vilja þjóðarinnar, að hún vildi sjálf ráða ferðinni í samskiptum við Evrópusambandið. Skyndilega varð ljóst að þrátt fyrir að gamlir stjórnmálaflokkar með úreltar hugmyndir væru við völd hefði veruleikinn breyst. Traustur þingmeirihluti dugði ríkisstjórninni ekki til að koma tillögunni í gegnum Alþingi, afl þjóðarinnar leystist úr læðingi með alveg nýjum hætti. Fyrir nokkrum árum hefði þessi atburðarás verið óhugsandi.

Þetta uppbyggilega afl þarf að virða og nýta.

Ég tala fyrir stjórnmálaflokk sem lifað hefur mikil veltiár. Við höfum hlotið mest fylgi allra flokka og tapað meira fylgi en nokkur annar flokkur. Stjórnmálaflokkar verða á endanum metnir af því hvernig þeir takast á við slík umbrot, hvort þeir mæta nýjum viðhorfum og nýjum þörfum.

Sagan af borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík 2010 er góð lexía. Samfylkingin tapaði miklu fylgi. Nýtt framboð Besta flokksins fékk yfirburðafylgi í borginni. Það voru margir sem efuðust um það sem tæki við. Borgarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar, undir forustu Dags B. Eggertssonar, leit svo á að okkur bæri að taka höndum saman við breytingaöflin og vinna af heilindum að stjórn borgarinnar. Í félagi við þau gætum við komið áherslum okkar til skila, staðið vörð um velferðarþjónustuna, unnið bug á miklu atvinnuleysi og lagt grunn að sókn í húsnæðismálum. Það var rétt ákvörðun. Samfylkingin var stofnuð til að vera afl og farvegur fyrir jákvæðar breytingar. Í hönd fór farsælt tímabil pólitísks stöðugleika og agaðrar fjármálastjórnar, byggt á góðu samstarfi Dags og Jóns Gnarrs sem hefur skilað Reykjavík miklum árangri.

Fyrir fjórum árum var almannarómur að framboð Besta flokksins væri til marks um pólitíska upplausn og skaðlegt alvöruleysi. Þegar Jón Gnarr býr sig nú undir að kveðja hið pólitíska svið er öllum ljóst að aðrir hefðbundnari stjórnmálamenn hafa frekar orðið til þess að skapa pólitíska upplausn undanfarin ár en hann og hið yfirlýsta grínframboð. Það ætti að verða okkur öllum umhugsunarefni, ekki síst í þessum sal.

Jón Gnarr á mikið hrós skilið. Hann áttaði sig á því að stjórnmál eru lifandi samtal við fólk um hagsmuni þess, aðstæður og hugsjónir. Því hefur hann sinnt með prýði. Ég þakka Jóni fyrir framlag hans og afar ánægjulegt samstarf. Við í Samfylkingunni höfum lært mikið af því samstarfi og hér á þingi geta sjálfsagt margir enn lært að losa svolítið um bindishnútinn og láta formið víkja fyrir efninu.

Við í Samfylkingunni höfum í þessum anda lagt höfuðáherslu á það síðustu missiri sem mestu skiptir um afkomu fólks. Við settum bráðaaðgerðir í húsnæðismálum á dagskrá í haust og höfum unnið að úrbótum í húsnæðismálum í öllum sveitarfélögum vítt og breitt um landið. Við viljum byggja upp leigumarkað svo fólk eigi raunverulegt val um að eiga eða leigja. Til þess þarf meiri uppbyggingu og betri húsaleigubætur svo venjulegt fólk ráði við að borga leigu. Úrbótatillögur okkar munu vonandi fá afgreiðslu í þinginu á næstu dögum og þær hafa þegar haft áhrif á stefnumörkun stjórnvalda.

Forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar þennan veturinn hafa verið önnur. Mörgum finnst ríkisstjórnin aðgerðalítil, en ég vil nú koma henni til varnar. Hún er samt búin að ná að lækka veiðigjald á stórútgerðina tvisvar á tæpu ári. Það hlýtur að teljast einhvers konar dugnaður. Skattbreytingar hennar hafa létt sköttum af þeim allra best settu og aukið byrðar á meðaltekjufólk og lágtekjufólk. Og skuldaniðurfellingarnar eru svo ómarkvissar að þær munu flytja peninga frá venjulegu fólki til þeirra ríkustu og eignamestu, frá landsbyggð til höfuðborgar og frá ungu fólki, lágtekjufólki og lífeyrisþegum til vel stæðs fólks á besta aldri. Þeir ríkustu fá gjafir frá þessari ríkisstjórn kvölds, morgna og um miðjan dag.

Mest selda bókin á Amazon þessa dagana er ekki bók um hvernig megi missa tíu kíló á tíu dögum, heldur hagfræðibók eftir Thomas Piketty sem fjallar um skaðsemi ójafnaðar, um að auður safnist óhjákvæmilega á sífellt færri hendur ef ekkert verður að gert, um mikilvægi þess að leggja háa skatta á mikinn auð til að skapa almenn tækifæri og félagslegt réttlæti. Á sama tíma tilkynnir formaður Sjálfstæðisflokksins að stefna ríkisstjórnarinnar sé að hafa eitt skattþrep á alla, hækka eigi skatt á mat og nauðsynjar og lækka hæstu skatta á há laun og mikinn auð.

Ekkert sýnir betur hversu úrelt viðhorf ríkisstjórnarinnar eru. Það er einfaldlega eins og deigla nýrra hugmynda sem eru á kreiki um allan heim hafi algerlega farið fram hjá þessari ríkisstjórn og þeim flokkum sem nú fara með landsstjórnina. Þeir stjórna í þágu fárra og reyna ekki einu sinni að fela það. Þess vegna þarf ný stjórnmál gegn gömlu pólitíkinni. Til að grípa tækifærin þarf samfélag almennra leikreglna.

Við verðum að geta ráðið okkur sjálf. Við þurfum ekki fleiri séríslenskar lausnir, ekki fleiri heimsmet sem flytja fé til þeirra ríkustu, valda verðbólgu og rýra lífskjör okkar til frambúðar. Engar töfralausnir, takk, ekki stærri bólur, ekki áframhald hafta og gengisvandræða. Það þarf bara þær lausnir sem best hafa dugað í nágrannalöndum okkar þegar kreppt hefur að.

Við í Samfylkingunni bjóðum upp á sígildan leiðarvísi sem reynst hefur vel, samfélagssýn norrænnar jafnaðarstefnu sem boðar ábyrgt, opið markaðshagkerfi, einstaklingsfrelsi, efnahagslegan stöðugleika og félagslegt réttlæti. Markmið jafnaðarstefnunnar er að beita ríkisvaldinu í almannaþágu, gefa öllum tækifæri, auka vald fólks yfir eigin lífi, styðja þá sem minna hafa til sjálfstæðis og tryggja frelsi fólks undan kúgun feðraveldis, auðs eða ríkisvalds.

Það er ekki nóg að meina vel ef leiðarvísinn skortir. Jafnaðarstefnan er sú rót sem Samfylkingin sækir til næringu og styrk. Jafnaðarstefnan ógnar kyrrstöðu og hún ógnar sérhagsmunum því að hún krefst og kallar á almennar leikreglur. Hún ógnar möguleikum ráðandi afla til að skammta sér aðstöðu, hygla vildarvinum og deila með sér völdum. Það er vegna jafnaðarstefnunnar sem Samfylkingin er höfuðógn ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er öll gagnrýni kölluð samfylkingarspuni og þess vegna eru aðrir flokkar uppnefndir sem útibú Samfylkingarinnar. Við lítum á slík ummæli sem hrós úr ranni afturhaldsaflanna. Og við þökkum hrósið.

Fram undan eru kosningar til sveitarstjórnar. Samfylkingin býður fram skýra stefnu. Við ógnum óhrædd kyrrstöðunni með jafnaðarstefnuna að leiðarljósi. Við viljum fylkja breytinga- og framfaraöflum í skapandi samstarfi. Við höfum tillögur til lausna á alvarlegum húsnæðisvanda. Við höfum í ríkisstjórn og sveitarstjórn tekist á við gríðarlegan vanda, dregið úr útgjöldum, forðast álögur á venjulegt fólk og varið velferðarþjónustu. Og við höfum lagt áherslu á rétt fólks til að ráða sjálft málum er miklu varða og verið í fararbroddi í þróun íbúalýðræðis.

Við hlökkum til stefnumóts við ykkur öll í komandi sveitarstjórnarkosningum. — Takk fyrir veturinn. Gleðilegt sumar.