143. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2014.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:26]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Hvað erum við að vilja hér upp á dekk, nýr flokkur með sex þingmenn, hvað á þetta að þýða, hvað erum við að gera hérna, Björt framtíð? Af hverju erum við ekki bara í gömlu flokkunum sem voru hérna fyrir, stofnaðir 1916 og upp úr af miklu sómafólki? Af hverju getum við ekki bara starfað innan þeirra?

Ég les stundum svona stöður á fésbókinni. Mér finnst alltaf jafn sprenghlægilegt og gaman að lesa eitthvað þessu líkt. Það er gaman að upplifa einhvern veginn pirringinn í sumum yfir því að Björt framtíð sé til, Björt framtíð sé að festast í sessi.

Mig langar svolítið að segja ykkur núna, kæru landsmenn, um hvað Björt framtíð snýst. Við erum mótvægi við gömlu flokkana. Við erum vettvangur fólks sem kom saman vegna þess að við gátum ekki hugsað okkur, og höfðum sum prófað það, að starfa í gömlu flokkunum. Í gömlu flokkunum er fullt af mjög góðu fólki, allt að leggja sitt af mörkum, en menningin er gömul, hún er uppfull af ósiðum og það þarf að berjast gegn þeim. Við verðum oft vör við það á þingi hvað ósiðirnir, hvað gamla menningin flækist fyrir okkur. Við vildum stofna flokk og höfum stofnað flokk sem tekur ekki þátt í gömlum deilum — af því bara. Við viljum berjast gegn gömlum hefðum. Við erum óbundin af gömlum rótgrónum hagsmunum. Við byrjuðum með autt blað. Við stofnuðum flokk eins og við viljum hafa hann, byggðan á gildum sem við settum á A4-blað, sem sameina okkur. Þetta er flokkur fyrir 21. öldina. Við trúum því að það sé til eitthvað í öllum málum sem heitir skynsamleg niðurstaða. Við trúum því að besta leiðin til að ná skynsamlegri niðurstöðu sé samtal, samtal milli ólíks fólks þar sem fólk leggur ólíkar skoðanir í púkkið. Við viljum meina að í gömlu flokkamenningunni, alveg sama þótt allir leggi sitt af mörkum innan þeirrar menningar, hafi mistekist að leggja rækt við þetta samtal.

Við sjáum hvernig Besti flokkurinn hefur starfað í borginni. Það er lýsandi fyrir það hvernig við viljum nálgast pólitík. Þar sáum við dæmi um hina úreltu pólitísku menningu sem hafði m.a. lagt Orkuveitu Reykjavíkur í rúst. Það þurfti að koma inn með ferska nálgun, nýtt samtal. Besti flokkurinn fór inn í Orkuveitu Reykjavíkur ásamt Samfylkingunni og umturnaði því fyrirtæki algjörlega. Það blasir ekki lengur við gjaldþrot. Það þurfti að taka erfiðar ákvarðanir. Nýtt aðalskipulag í Reykjavík er ótrúlega fallegur og tær vitnisburður um þetta samtal og hvað getur sprottið af því þegar það tekst.

Við viljum leggja áherslu á þetta líka hér á þingi og höfum gert það þann fyrsta þingvetur sem Björt framtíð hefur starfað. Þetta er eitt meginerindi okkar í pólitík, að búa til samtalið og leggja rækt við það. En til þess að taka þátt í samtalinu verður að hafa skoðanir. Það eru engin skoðanaskipti án skoðana. Við höfum þær í ríkum mæli.

Við förum fram undir merkjum frjálslyndis. Við teljum að það sé ærin þörf á flokki sem leggur áherslu á það hugtak, frjálslyndi. Einangrunartilhneigingin, einangrunarstefnan er það rík í þessu samfélagi, á þessu eyríki. Tilhneigingar til hafta eru ríkar. Tilhneigingar til forræðishyggju. Tilhneigingar til neyslustýringar. Tilhneigingar til einokunar og samkeppnisleysis. Þessu öllu þarf að berjast gegn. Það er erindi Bjartrar framtíðar.

Við setjum mannréttindi á oddinn. Það er ekki bara innihaldslaust. Við teljum að mannréttindi séu málaflokkur sem þarf að standa vaktina í. Þess vegna leggjum við áherslu á að fatlað fólk njóti sjálfstæðs lífs. Það nýtur þess ekki núna. Við leggjum áherslu á að börn fái notið beggja foreldra sinna eftir sambúðarslit. Við vorum að samþykkja slíkt mál í þinginu sem við lögðum fram.

Við teljum að það þurfi að standa vaktina um umhverfismál. Við teljum að það sé rík þörf á flokki sem er grænn en er ekki vinstri flokkur. Við erum frjálslyndur grænn mannréttindaflokkur.

Svo heitum við Björt framtíð. Hvað á það að þýða? Þetta er mjög óhefðbundið nafn. Er það ekki allt of krúttlegt einhvern veginn? Okkur hefur tekist að lauma okkur inn í a.m.k. annað hvert heillaóskaskeyti í landinu með þessu nafni. Að sjálfsögðu er það með ráðum gert, svona langtímaáróður. Ég held við séum í öllum fermingarskeytum þar sem við óskum hvert öðru bjartrar framtíðar. En þetta nafn er engin tilviljun. Við völdum það eftir að tvö þúsund manns höfðu tekið þátt í nafnasamkeppni þar sem við auglýstum eftir tillögum að nafni á hinn nýja flokk. Þátttakan lýsti áhuga fólks á því að taka þátt í nýjum stjórnmálum. Björt framtíð var tillaga sex karlmanna víðs vegar að af landinu. Við völdum það vegna þess að það lýsir tilgangi okkar. Það lýsir markmiðum okkar. Það lýsir því hvað við viljum gera í pólitík og hvað við teljum pólitík snúast um.

Við segjum sem sagt: Allar ákvarðanir sem við tökum í þessum sal eiga að stuðla að bjartri framtíð. Þær eiga að gera framtíðina bjarta. Þær eiga að gera samfélagið betra. Þær eiga að auka tiltrú fólks á því að það sé gott að búa hérna.

Í sömu andrá og við vorum að ákveða þetta nafn var gerð könnun meðal ungs fólks á Íslandi sem sýndi að um 60%, að ég held, höfðu íhugað að flytja varanlega úr landi. Erindi Bjartrar framtíðar er að ná þessari prósentutölu niður. Ísland á að vera land þar sem ungt fólk vill búa.

Þess vegna höfum við á þessum þingvetri lagt svona gríðarlega mikla áherslu á það að við aukum fjárfestingu í nýsköpun, menntun, rannsóknum, þróun og skapandi greinum. Þess vegna var það okkur svo rosalega mikil vonbrigði þegar ríkisstjórnin ákvað að blása af fjárfestingaráætlun sem snerist um markvissa fjárfestingu í öllum þessum sprotum. Við töldum að fjárfestingaráætlunin, byggð á ótal greiningum og skýrslum, væri sigurstranglegasta leiðin til að búa til bjarta framtíð hvað þetta varðar, að búa til fjölbreytt atvinnulíf, að búa til atvinnulíf sem getur borgað há laun, skilað meiri útflutningi og skapað störf fyrir ungt fólk með fjölbreytta menntun. Þetta var blásið af.

Í tveimur stórum deilumálum á þingi leggjum við þennan mælikvarða um bjarta framtíð á málin. Það var talað um að slíta viðræðum við ESB. Hvort felur það í sér bjarta framtíð að slíta viðræðunum eða halda þeim áfram og athuga hvort góður samningur feli í sér aukna möguleika fyrir Íslendinga, betri kjör, meiri stöðugleika? Er það ekki betri leið til þess að gera framtíðina bjartari að halda þó þessum möguleika opnum á nýjum gjaldmiðli? Hvaða framtíðarsýn er í hinni leiðinni, að slíta viðræðunum? Og hvað blasir við þá? Að minnsta kosti erum við einum möguleika færri. Það er vont fyrir framtíðina.

Hitt málið sem varðar líka bjarta framtíð eru skuldaleiðréttingaráform ríkisstjórnarinnar. Þar eru 80 milljarðar í húfi sem við í þessum sal munum væntanlega í þessari viku ákveða með meiri hluta atkvæða að verja til ómarkvissrar og óréttlátrar niðurgreiðslu höfuðstólsskulda sumra heimila. Þessa 80 milljarða væri hægt að nota til að greiða niður opinberar skuldir. Hvað mundi það gera? Það mundi auka svigrúm komandi kynslóða í fjárlögum til að gera alls konar hluti. Í staðinn ætlum við ekki að borga niður opinberar skuldir og við ætlum ekki að fara í nauðsynlegt viðhald og uppbyggingu á innviðum samfélagsins sem frestast þá bara og við veltum því á komandi kynslóðir. Við ætlum að eyða öllum þessum peningum núna, fyrir okkur. Þetta er ekki björt framtíð.

Það er nefnilega hægt að leggja mælikvarða Bjartrar framtíðar á öll mál. Hér nefni ég tvö stór mál sem fá falleinkunn út frá þessum mælikvarða, þ.e. tillagan um að slíta ESB-viðræðunum og tillagan um skuldaniðurfærslu heimilanna.

Góðir landsmenn. Við erum stolt af því sem við höfum lagt af mörkum á okkar fyrsta þingvetri. Við erum komin til að vera. Við erum sterkt afl. Við erum byggð á djúpri sannfæringu, sterkum gildum. Við bjóðum núna fram í níu sveitarfélögum um land allt.

Ég þakka alþingismönnum kærlega fyrir samstarfið í vetur. Ég vona að við höfum haft góð áhrif í þessum sal. Ég óska landsmönnum að sjálfsögðu bjartrar framtíðar.