143. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2014.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Ábyrgð í opinberum fjármálum er forsenda framfara á Íslandi. Það er reynsla allra þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við. Hér er ekki um nein geimvísindi að ræða. Við þurfum aga í opinber fjármál, við verðum að greiða niður skuldir og langtímasjónarmið verða að vera ríkjandi í fjármálum ríkis og sveitarfélaga.

Það eru ekki til neinar töfralausnir. Agi, ráðdeild og langtímahugsun er nauðsynleg ef árangur á að nást í hagstjórn á Íslandi og er til dæmis algjör forsenda fyrir upptöku á öðrum gjaldmiðli.

Við höfum stigið skref í átt að þessum markmiðum. Fjárlög á yfirstandandi ári voru afgreidd með afgangi í fyrsta skipti í mörg ár. Fjárlaganefnd hefur haft virkt eftirlit með framkvæmd þeirra. Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar lagði fram á annað hundrað tillögur um betri nýtingu opinbers fjár. Fjármálaráðherra hefur lagt fram nýtt frumvarp um opinber fjármál sem felur í sér bætt vinnubrögð og aukið gagnsæi.

Fjárlaganefnd hefur lagt fram frumvarp um markaðar tekjur sem hefur það að markmiði auðvelda fjárlagavinnu, áætlanagerð og aga í ríkisfjármálum. Í sumar mun fjárlaganefnd vinna að framgangi frumvarpanna í samráði við hagsmunaaðila og markmiðið er að fyrir árslok muni þingið klára vinnuna.

Ríkisvaldið verður að fara á undan með góðu fordæmi og þar verða allir að leggjast á eitt. Það er ekki nóg að ríkisstjórnarflokkarnir ákveði að fara í þessa vegferð. Við verðum að fara að fordæmi frænda okkar á Norðurlöndunum en þeir ákváðu í kjölfar bankakreppu í upphafi tíunda áratugarins að sameinast um að láta söguna ekki endurtaka sig.

Í Svíþjóð er þess vegna samstaða allra stjórnmálaflokka og embættismanna um að ná árangri á þessu sviði. Við verðum að gera það sama hér. Samstaða stjórnmálaaflanna í landinu er forsenda þess að árangur náist. Ríkisfjármál hlíta sömu lögmálum og fjármál heimila og fyrirtækja. Við verðum að afla meiru en við eyðum. Við verðum að forgangsraða í þágu þess sem er mikilvægast og við verðum að muna að skuldir hafa einn stóran galla. Það þarf að greiða þær. Ef við höfum þetta hugfast mun okkur farnast vel.

En það er fleira en opinber fjármál sem skiptir máli. Fyrir þinginu liggja frumvörp sem hafa það að markmiði að aðstoða heimili landsins við að lækka skuldir sínar. Hér er um að ræða mikla stefnubreytingu í húsnæðismálum. Í áratugi hafa stjórnvöld ýtt undir skuldsetningu heimila með aðgerðum sínum. Hefur það verið gert með niðurgreiðslu vaxta, umsvifamiklum rekstri húsnæðisbanka þar sem öll lán hafa verið með ríkisábyrgð og háu lánshlutfalli.

Kostnaðurinn við þessa stefnu hefur verið mikill. Beinn og óbeinn kostnaður skattgreiðenda af Íbúðalánasjóði samkvæmt skýrslu verkefnisstjórnar húsnæðismálaráðherra er í það minnsta 100 milljarðar kr. Helsti vandi sjóðsins, og þar af leiðandi skattgreiðenda, er að viðskiptavinir hans vilja ekki vera í viðskiptum við bankann. Því fleiri viðskiptavinir sem yfirgefa bankann, því stærri reikningur fellur á fólkið í landinu.

Kostnaður skattgreiðenda vegna vaxtabóta frá árinu 2005 er um 100 milljarðar kr. Ef teknir eru saman fjármunir sem ráðstafað hefur verið í vaxtabætur og Íbúðalánasjóð nemur upphæðin um 200 milljörðum. Fyrir þá fjárhæð væri til dæmis hægt að byggja tvo nýja landspítala eða 13–14 Héðinsfjarðargöng.

Árangur aðgerða núverandi ríkisstjórnar veltur alfarið á því hvort íslenskar fjölskyldur nýti tækifærið, greiði niður skuldir sínar og sýni ráðdeild og sparsemi. Ef það verður gert skapast hér án nokkurs vafa viðspyrna fyrir millistéttina í landinu og forsendur fyrir aukinni hagsæld. Mikilvægt er að húsnæðisstefna muni til framtíðar ýta undir ráðdeild og sparnað, hjálpa fólki til að eignast húsnæði en ekki ýta því út í skuldsetningu. Það að nýta viðbótarséreignarfyrirkomulagið til þessa er góð byrjun og hún á að vera varanleg fyrir þá sem kaupa sína fyrstu íbúð. Það mun líka styrkja viðbótarlífeyrissparnaðarkerfið til frambúðar. Umbuna á fyrir ábyrga fjármálastjórn heimila.

Góðir Íslendingar. Gjaldeyrishöftin eru mesta ógn íslenskra heimila og fyrirtækja. Þau skekkja umhverfi íslensks atvinnulífs, kostnaður vegna þeirra er mikill og eykst með hverjum degi sem líður. Unnið er skipulega að undirbúningi afnáms þeirra á vegum ríkisstjórnarinnar. Lykillinn að afnámi hafta er traust fjárfestingarumhverfi, það er forsendan fyrir því að einstaklingar og fyrirtæki, innlend sem erlend, fjárfesti hér á landi.

Breytt skattumhverfi, minnkun fjárfestingarhindrana og pólitískur stöðugleiki eru forsendur fjárfestinga. Við höfum stigið skref í þá átt en eigum að gera betur. Við eigum að vinna skipulega að því að gera Ísland að vænlegum fjárfestingarkosti. Ef við gerum það ekki munum við missa fólk og fyrirtæki úr landinu, jafnt lítil sem stór. Höfum það hugfast að lítil og meðalstór fyrirtæki eru drifkraftur hagvaxtar.

Ísland er land tækifæranna en við verðum að nýta þau. Við gerum það með því að gefa fólkinu í landinu tækifæri til að njóta sín. Það á við á öllum sviðum, ekki síst á sviði mennta- og heilbrigðismála.

Góðir landsmenn Ef Íslendingar fá tækifæri til að nýta sína hæfileika mun það skila sér fyrir okkur öll. — Góðar stundir.