143. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2014.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:13]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn, Mig langar að tala um kosningaloforð því við erum þessa dagana að ræða mjög stórt mál hér á þinginu sem byrjaði sem kosningaloforð og snýr að niðurfellingu á fasteignalánum sumra heimila. Mér finnst kosningaloforð almennt vera frekar furðulegt fyrirbæri því þau ganga út á að lofa kjósendum einhverjum aðgerðum sem þeir greiða síðan sjálfir.

Árið 2013 hélt ég að tími kosningaloforða væri liðinn en svo var ekki. Fyrir kosningarnar skaut upp kollinum brjálæðislegu kosningaloforði sem gekk út á að setja 300 milljarða í að greiða niður lán heimilanna í boði hrægamma. Eftir útfærslur stjórnvalda varð umfangið minna og lítið hefur heyrst af hrægömmunum og aðgerðirnar eru í boði skattgreiðenda eins og alltaf er. Við í Bjartri framtíð teljum þessar niðurfellingar mjög vanhugsaðar og teljum að þær séu að mörgu leyti óréttlátar og óábyrgar. Ég ætla að fara betur yfir það í ræðu á morgun þegar við á þinginu ræðum það frumvarp.

Ég vil undirstrika núna að aðgerðirnar eru gríðarlega kostnaðarsamar fyrir ríkissjóð og dreifast svo þunnt til heimila að fæstir munu finna nokkurn mun. Það fara 20 þúsund milljónir í þessa aðgerð í ár. Það fara aðrar 20 þúsund milljónir í þessa aðgerð á næsta ári. Það fara síðan aftur 20 þúsund milljónir í aðgerðina á þarþarnæsta ári og enn og aftur 20 þúsund milljónir á fjárlögum 2017. Og til að setja þetta í eitthvert samhengi þá duga 20 milljarðar eða 20 þúsund milljónir til að reka alla háskóla landsins á einu ári og vel það. Fyrir 80 milljarða er hægt að reisa nýjan Landspítala og vel það.

Ég upplifði það í haust í fjárlagavinnunni að ekki var átakalaust að setja saman hallalaust fjárlagafrumvarp fyrir stjórnvöld. Þráttað var um milljónir og jafnvel hundraðþúsundkalla. Víða var skorið niður og sum verkefni hreinlega slegin af borðinu án fyrirvara.

Það er aldrei talað um niðurskurðaraðgerðir fyrir kosningar. Engin loforð í þá veruna. Var því til dæmis lofað að fjárfestingaráætlunin yrði slegin af? Ég man ekki eftir því að á framboðsfundum í mínu kjördæmi að því hafi verið lofað að sóknaráætlun landshluta yrði skorin niður eins og raunin varð, eða að menningarsamningar við landshlutasamtök sveitarfélaga myndu lækka um 10% og reyndar settir í algert uppnám. Fór það kosningaloforð fram hjá mér?

Það er líka eitthvað bogið við það að flokkar fari fram fyrir kosningar og reyni að selja kjósendum dýrar hugmyndir sem eru ekki einu sinni útfærðar. Í kosningabaráttu er enginn tími, ekkert pláss til að ræða ítarlega neikvæðar afleiðingar kosningaloforða eins og skuldaniðurfellingar.

Ég man eftir framboðsþætti snemma í kosningabaráttunni þar sem ég stóð skjálfandi á beinunum með titrandi rödd, ekki ólíkt því sem er hér í dag, hafði örfáar mínútur til að segja eitthvað mjög gáfulegt, meðvituð um það að fullt af fólki væri að horfa á mig og ég þurfti að svara fyrir það af hverju Björt framtíð vildi ekki fara sömu leið og Framsóknarflokkurinn. Vildum við þá ekki gera neitt fyrir heimilin? Mér fannst það merkilegt að þurfa að eyða tíma mínum í að svara fyrir kosningaloforð annarra flokka.

Auðvitað vill Björt framtíð gera margt fyrir heimilin annars værum við ekki í pólitík, það segir sig sjálft. Það eru heimilin sem nota menntakerfið, heilbrigðiskerfið og alla innviði samfélagsins og það gera öll heimili, allir þeir sem skulda, þeir sem leigja, þeir sem búa í skuldlausu húsnæði, þeir sem kaupa sér búseturétt og þeir sem eiga enn eftir að fara inn á húsnæðismarkaðinn, unga fólkið. Það að greiða niður skuldir ríkissjóðs væri að okkar mati mjög gott skref fyrir heimilin. Það að tryggja stöðugleika er mjög mikilvægt fyrir heimilin. Góð grunnþjónusta er mikilvæg fyrir heimilin en við erum aldeilis ekki sannfærð um að 80 milljarða króna niðurgreiðsla á fasteignalánum sumra heimila sé besta aðgerðin fyrir heimilin.

Mér finnst þessi aðgerð ekki lýsa aga í opinberum fjármálum. En ef þetta er það sem þjóðin vill og þingið er að fara að samþykkja á næstu dögum getum við ekki kvartað yfir því að það vanti peninga í menntakerfið, í heilbrigðiskerfið, í löggæsluna, í samgöngur, í menningu, í listir, í byggðamál. 80 milljörðum sem fara í niðurgreiðslur verður ekki eytt í annað.

Mér finnst heldur ekki ábyrgt að velta reikningnum af hruninu inn í framtíðina í meira mæli en þegar hefur verið gert. Við höfum búið til hagkerfi þar sem forsendubrestur eða gengisfelling verður á nokkurra ára fresti. Við viljum nota gjaldmiðil sem ýtir undir óstöðugleika, gjaldmiðil sem má spyrja hvort sé yfir höfuð nothæfur í dag. Við virðumst ekki einu sinni geta klárað það verkefni að skoða hvort hagsmunum okkar til framtíðar sé betur borgið í náinni samvinnu við okkar helstu vinaþjóðir, með aðild að Evrópusambandinu. Það er ekkert sérstaklega flókið verkefni. Fjölmargar þjóðir hafa klárað það án vandkvæða. En ekki við. Við skulum endilega flækja málin aðeins ef við getum það.

Að lokum vil ég segja að við eigum ekki að vera þjóð sem flækir málið að óþörfu. Við eigum ekki að vera þjóð sem elur á sundrung og ósætti. Og við eigum ekki að vera þjóð sem klúðrar efnahagsmálum og sendir reikninginn inn í framtíðina til næstu kynslóða, það er ekki skynsamlegt. Það eru til aðrar leiðir og fyrir þær leiðir stendur Björt framtíð.