143. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2014.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Nú hafa Píratar setið á Alþingi í rétt rúmlega eitt ár. Á þeim tíma höfum við háð varnarbaráttu í ýmsum málum í þeirri ætlan okkar að standa vörð um borgararéttindi og lýðræði upp að því marki sem okkur er unnt.

Við höfum lagt fram mál til að endurskoða refsistefnuna í vímuefnamálum. Við höfum reynt að efla tjáningarfrelsi. Sömuleiðis höfum við reynt að sporna við í þau skipti sem við höfum séð aðgerðir stjórnvalda brjóta í bága við réttindi borgaranna í landinu.

Eftir þetta ár á Alþingi er mér ljósara en nokkru sinni fyrr hvað sé málið, hvað er að, hvað þarf að laga, bæta og styrkja hér á landi frekar en nokkuð annað, hvað það er sem við eigum að ræða fyrst og fremst. Lýðræðið sjálft, kæru landsmenn, virðulegi forseti.

Nú vil ég ekki gera lítið úr þeirri lýðræðishefð sem Íslendingar njóta. Við erum heppin svo ekki sé meira sagt miðað við þjóðir sem búa við einræði eða eitthvað slíkt. Við erum vissulega vestrænt lýðræðisríki og það er gott. En það eru samt sem áður mjög veigamiklir og alvarlegir gallar á fyrirkomulagi okkar. Einn veigamesti gallinn er sá að á milli alþingiskosninga hefur þjóðin enga leið til þess að koma sínum vilja á framfæri í ákvarðanaferlinu sjálfu. Þó hafa verið tækifæri og tilefni til þess að halda bæði bindandi og ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur.

Lýðræðið er ekki eina grundvallaratriðið í menningu okkar og er ekki endilega svarið við öllum spurningum og öllum deilum, en gleymum því ekki hvað við búum við. Hver borgari í landinu hefur einn bókstaf — einn bókstaf — á fjögurra ára fresti til að segja allt sem hann vill um öll mál sem við fjöllum um. Ef hann er svo heppinn að hafa hátt í hálft stafróf að velja úr þá eru í þokkabót allnokkrar líkur á því að atkvæðið fari til spillis. Ég minni á að 11,8% þeirra sem kusu flokk í seinustu kosningum eiga sér engan málsvara á Alþingi. Helmingur þeirra þingflokka sem sitja á Alþingi sitja í umboði lægra hlutfalls. Virðulegi forseti. Ég lít svo á að það sé vandamál. Við píratar lítum alls ekki á okkur sem málsvara þeirra kjósenda vegna þess að við erum ósammála ýmsum stefnumálum þeirra flokka sem ekki náðu inn manni en, virðulegi forseti, punkturinn er sá að þessir kjósendur hafa rétt á að taka þátt í ákvarðanaferlinu. Meira en 22 þús. manns, sem kusu þó flokk, hafa enga rödd hér inni vegna þess kerfis sem við búum við, vegna kerfis sem er hægt að bæta. Við höfum valdið til að gefa þeim rödd.

Ekki er langt að minnast mestu mótmæla frá búsáhaldabyltingu gegn þeirri ákvörðun yfirvalda að slíta viðræðum við Evrópusambandið án þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá sýndi þjóðin í orði og verki að þótt við séum vissulega heppin miðað við þjóðir sem búa við harðstjórn þá er það sem við höfum í dag einfaldlega ekki nóg. Við þurfum meira lýðræði, virðulegi forseti. Þá stendur einhver upp og bendir á að ekki geti þjóðin tekið ákvarðanir um allt. En, virðulegi forseti, getur hún ekki tekið ákvarðanir um neitt?

Sú bylting sem mannlegt samfélag gengur nú í gegnum og er jafnan kölluð upplýsingabyltingin býður bæði upp á ógnir og tækifæri. Í dag ætlum við píratar að nýta tækifærið. Við höfum opnað vefsíðu sem ber heitið Öryggisventill með tilvísun í málskotsrétt forseta lýðveldisins. Í þeim rétti felst eina leiðin til að knýja fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi. Slóðin að þessum vef er ventill.is.

Ég vil ljúka ræðu minni á því að útskýra þessa tilraun. Öryggisventill gerir fólki kleift að nota svokallaðan íslykil til þess að skrifa undir mótmæli gegn þingmálum sem eru lögð fram á Alþingi. Þess má geta að íslykillinn er nú þegar notaður af yfirvöldum til þess að auðkenna borgara þegar þeir þurfa að gera ýmislegt, svo sem að skipta um trúfélag, en einnig hyggjast stjórnvöld nota hann við skuldaleiðréttingar í nánustu framtíð, sem þýðir að upptaka hans mun vafalaust aukast talsvert. Það er rétt að geta þess að Öryggisventill verður áfram þróunarverkefni þar til í haust. Þingmál 143. þings verða þar inni til prófunar í sumar og á þeim tíma vonast píratar til þess að rekast á og laga þá galla sem gætu enn leynst í kerfinu og enn fremur til þess að taka við gagnrýni og hugmyndum frá almenningi sem við getum síðan nýtt til þess að bæta hugbúnaðinn. Þegar Alþingi kemur síðan aftur saman í haust verður vefurinn stilltur til þess að taka við nýjum þingmálum á 144. þingi og mun standa sem áreiðanleg og varanleg undirskriftasöfnun gegn hverju einasta þingmáli sem lagt er hér fram. — Góðar stundir.