143. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2014.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Ég þekki litla sex ára stelpu sem ætlar að verða alþingismaður. Hún veit ekkert meira spennandi en að fá að kíkja inn í salinn og fylgjast með þingstörfum. Ég efast ekki um að draumur hennar rætist ef það er það sem hún vill þegar hún stækkar. En hvert verður hennar helsta viðfangsefni á Alþingi? Við hvernig búi mun hún taka þegar hún sest í stólinn? Það ræðst af því með hvaða hætti við sem nú sitjum á Alþingi högum verkum okkar.

Helsta markmið alþingismanna er að tryggja aukin lífsgæði Íslendinga til framtíðar. Til að ná því marki þarf að ná tökum á rekstri ríkissjóðs og þá þurfa tveir þættir að koma til, auknar tekjur og minni útgjöld ríkissjóðs.

Auknar tekjur fást með meiri verðmætasköpun í samfélaginu og sterkara atvinnulífi. Hlutverk stjórnmálamanna í þeirri hlið þessarar jöfnu er að gæta að því að leikreglur séu skýrar, einfaldar og hamli ekki möguleikum einstaklinga og fyrirtækja til að vaxa og dafna án þess þó að ganga á frelsi annarra. Hinn þátturinn snýst um að draga úr útgjöldum ríkissjóðs með því að endurskipuleggja ríkisreksturinn, draga úr skuldsetningu og auka skilvirkni. Ef okkur tekst hvort tveggja munum við tryggja bætt lífskjör almennings til framtíðar og að komandi kynslóðir alþingismanna geti rætt fjölbreyttari málefni í þingsalnum en þau hvernig eigi að greiða gamlar skuldir.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er á réttri leið og hefur þegar náð árangri. Við lögðum fram hallalaus fjárlög í fyrsta sinn frá hruni og stöðvuðum þar með skuldasöfnun ríkisins. Við framlengdum ekki auðlegðarskattinn en þar var á ferðinni ósanngjarn skattur sem lagðist að stórum hluta á eldra fólk og þá sem búa tekjulitlir í dýrum eignum. Við lækkuðum veiðigjöld, sem er eðlileg aðgerð þegar sjávarútvegurinn býr við erfið rekstrarskilyrði. Við erum nú í annað sinn að lækka álögð veiðigjöld vegna lækkunar á afurðaverði. Við tókum við af stjórnvöldum sem ætluðu sér að taka 17 milljarða í veiðigjöld í dag en hefðu þau áform ekki verið stöðvuð hefði það haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar á stöðu grundvallaratvinnugreinar þjóðarinnar og leitt til hruns byggða hringinn í kringum landið.

En betur má ef duga skal og til þess að álagning veiðigjalda fari fram með vönduðum hætti til framtíðar þurfum við að endurskoða það fyrirkomulag frá grunni.  

Við brugðumst við ákalli um aukna fjárþörf til heilbrigðismála strax á fyrstu mánuðum nýrrar ríkisstjórnar. Við bættum nokkrum milljörðum króna í Landspítalann í rekstur og í tækjakaup á heilbrigðisstofnunum. Á höfuðborgarsvæðinu var öldrunarrýmum fjölgað um 40 og með ráðstöfunum fjárlaganefndar og þingsins var 200 millj. kr. bætt við til að fjölga hjúkrunarrýmum á landsbyggðinni með því að nýta betur þær fjárfestingar sem til staðar eru. Það munar um minna.

Ein skattahækkun hefur átt sér stað, á stóru fjármálafyrirtækin og banka í slitameðferð.

Við vinnum að því að breyta skólakerfinu til hins betra og stytta námstíma til stúdentsprófs.

Fyrir þinginu liggur einnig frumvarp um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Við eigum mikinn mannafla á sviði heilbrigðisvísinda sem býr yfir yfirburðaþekkingu á ýmsum sviðum sem hægt er að nýta til framþróunar. Til framtíðar eigum við að búa okkur undir mikla sókn á þessu sviði. Þekking er undirstaða framfara, við skulum sækja fram.  

Góðir Íslendingar. Ég vona að litla stelpan haldi áfram að hafa ánægju af því að fylgjast með þingstörfunum. Ég trúi að hún geti í framtíðinni bent á það sem við gerðum á þessu kjörtímabili og sagt: Þau breyttu hlutunum, þau sneru vörn í sókn og lögðu grunn að þeim auknu lífsgæðum sem við búum við í dag.

Það eru bjartir tímar fram undan á Íslandi. Við höfum allt sem þarf til að byggja upp enn sterkara samfélag. Nýtum tækifærin, göngum glöð og óhrædd til verka. — Góðar stundir og gleðilegt sumar.