143. löggjafarþing — 113. fundur,  14. maí 2014.

afbrigði um dagskrármál.

[22:32]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að lýsa algerri andstöðu við það að ríkisstjórnin og Alþingi setji lög á verkfall flugmanna. Fyrir því eru ýmsar ástæður sem við eigum eftir að gera grein fyrir. Á þingflokksfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var ákveðið að greiða ekki atkvæði gegn því að afbrigði verði veitt vegna þess að við viljum fá þetta mál inn í þingið.

Hvers vegna? Vegna þess að annar kostur blasir við eftir að þingið fer frá og það er að sett verði bráðabirgðalög á þetta verkfall og önnur verkföll sem kunna að vera í bígerð. Það viljum við ekki að gerist, við viljum þess vegna að málsaðilar komi inn í þingið, komi fyrir þingnefnd og kynni sjónarmið sín. Það er eðlilegt að gerist. (Forseti hringir.) Hinn kosturinn er afar slæmur, að ríkisstjórnin verði ein um að setja bráðabirgðalög á þetta verkfall og önnur verkföll. Dæmin hræða, munum Herjólf.