143. löggjafarþing — 113. fundur,  14. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[22:36]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

Sem kunnugt er hófust verkfallsaðgerðir Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair þann 9. maí síðastliðinn. Aðgerðirnar hafa falið í sér ótímabundið yfirvinnubann og tímabundna vinnustöðvun sem samtals mundu vara, ef það yrði látið ganga eins og til stóð, í níu daga á tímabilinu 9. maí til 3. júní. Kjaradeilum félagsins við Samtök atvinnulífsins, sem fara með samningsumboð fyrir hönd Icelandair, var vísað til ríkissáttasemjara 25. febrúar síðastliðinn. Síðan hafa deiluaðilar rætt saman en lítið hefur áunnist í þeim viðræðum og líta aðilar nú svo á að engin lausn sé í sjónmáli.

Líkt og þingheimur þekkir ná verkfallsaðgerðir Félags íslenskra atvinnuflugmanna til um þrjú hundruð flugmanna Icelandair. Aðgerðirnar hafa áhrif á um sex hundruð flug til og frá landinu og hundrað þúsund farþega félagsins þá níu daga sem tímabundin vinnustöðvun nær til. Að auki falla niður um sex flug á degi hverjum þann tíma sem ótímabundið yfirvinnubann stendur yfir. Icelandair hefur, eins og þjóðin þekkir nú þegar, þurft að aflýsa tugum flugferða, bæði í farþega- og fraktflugi, með tilheyrandi kostnaði og óhagræði fyrir farþega og útflutningsaðila. Það er því ljóst og ótvírætt að gríðarlegir samfélagslegir og efnahagslegir hagsmunir eru í húfi.

Við þekkjum öll umræðuna sem eðlilega hefur verið í samfélaginu undanfarna daga um þau áhrif sem þetta verkfall hefur á ótal atvinnugreinar í landinu. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi setið hjá meðan viðræður hafa verið í gangi og ítrekað lýst því yfir að þannig vilji ríkisstjórnin halda á verkefninu, að gefa aðilum öll tækifæri til þess að klára málið, er það samt orðið þannig og liggur ljóst fyrir að tekjutap samfélagsins í heild sinni er þegar orðið umtalsvert, enda er hér ekki um að ræða aðgerð sem einungis hefur áhrif á eina starfsstétt eða eitt fyrirtæki í landinu.

Áætlað tekjutap ferðaþjónustunnar einnar og sér, með tilliti til gjaldeyristekna og beinna skatttekna á hverjum degi umræddra verkfallsaðgerða, er um 900 millj. kr. Ferðaþjónustan sem og afleiddar atvinnugreinar eiga því mikið undir flugi á þessu tímabili, enda er hlutdeild Icelandair í flugi til og frá landinu rúmlega 70%, í kringum 65% hvað varðar flutning á fólki til og frá landinu og um 90% hvað varðar flutning á vöru til og frá landinu.

Óvissuþáttur aðgerðanna því mikill. Aukin óvissa leiðir m.a. til þess að erlendir ferðamenn afbóka ferðir sínar hingað til lands og þrátt fyrir að ferðaþjónustan sé ört vaxandi atvinnugrein er hún enn gríðarlega viðkvæm atvinnugrein og kvik og má því við mjög litlum áföllum.

Eftir því sem röskun vegna verkfallsaðgerða eykst og hefur aukist á undanförnum dögum, þeim mun fleiri afpanta ferðir hingað til landsins með tilheyrandi tekjutapi fyrir þjóðfélagið í heild sinni. Áhrifin hafa því miður orðið harðari og meira afgerandi en von var á í byrjun. Sérstaklega eru áhrif aðgerðanna skaðleg á þessum tíma árs, í byrjun þess tíma sem einna flestir ferðamenn koma hingað og í byrjun þess tíma sem umrædd atvinnugrein og margar aðrar afleiddar atvinnugreinar byggja einna mest afkomu sína á fyrir allt árið.

Auk þess hafa ferðaþjónustuaðilar, útflutingsaðilar og aðrir áhyggjur af orðspori Íslands meðal ferðamanna og orðspori Íslands erlendis, og þess vegna eru hér í húfi gríðarlegir hagsmunir fyrir íslenskt samfélag eins og öllum má ljóst vera. Aðgerðir Félags íslenskra atvinnuflugmanna hafa þegar haft og munu ef áfram heldur sem horfir hafa mjög neikvæð áhrif á vöruflutninga til og frá landinu, þó sérstaklega á íslenskan sjávarútveg, en langstærsti hluti fersks fisks er fluttur með flugvélum Icelandair, bæði með frakt og farþegavélum. Ferskfiskur er eins og við þekkjum öll viðkvæm vara og samningsstaða íslenskra fyrirtækja byggir á afhendingaröryggi. Ef sjávarútvegsfyrirtækin eða önnur útflutningsfyrirtæki geta ekki staðið við gerða samninga getur það valdið mjög miklu og varanlegu tjóni þannig að markaðir geta tapast fyrir íslensk fyrirtæki til lengri tíma.

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka þá skoðun mína sem ég hef margoft lýst opinberlega, að farsælasta leið þessa máls hefði verið að deiluaðilar hefðu náð samningum, að deiluaðilar hefðu axlað þá ábyrgð sem á þeim hvílir og tryggt það að samningar hefðu náðst. Það er ekki og á aldrei að vera sjálfsagt mál að ríkisvaldið grípi inn í kjaradeilu með þessum hætti og er í raun og veru óviðunandi að til þess þurfi að koma. Áður hefur verið gripið til svona aðgerða í verkfalli er tengdist flugi og samgönguöryggi á Íslandi árið 2010.

Það eru ætíð þung skref fyrir hvern ráðherra og hverja ríkisstjórn og að sjálfsögðu líka fyrir Alþingi að fjalla um frumvarp sem tekur á slíkum verkefnum. Réttur fólks til að grípa til sameiginlegra aðgerða til að knýja á um kjarabætur er verndaður og við viljum vernda hann í lengstu lög. Hins vegar, þegar menn fara hér mikinn í að mótmæla því að svona sé gert, með þeim rökum að launþegar eigi þennan rétt, sem er hárrétt, verðum við, líka löggjafinn, að velta fyrir okkur og meta áhrifin sem verkfallsaðgerðir gætu haft fyrir almenna launþega á Íslandi ef það yrði látið halda áfram óbreytt, hvaða áhrif það hefði fyrir fyrirtækin í landinu, fyrir atvinnuöryggi í umræddum greinum og fyrir lífsafkomu samfélagsins í heild sinni. Það er ekki nokkuð sem við getum rætt um af léttúð, enda mundi þetta ástand ef það fengi að vera svona áfram hafa veruleg og afgerandi áhrif ekki bara á ferðaþjónustuna, heldur á samfélagið í heild sinni. Það gæti haft mjög víðtæk áhrif á mjög marga launþega sem treysta á að þessi atvinnugrein geti fengið að blómstra.

Við höfum verið að sá mikilvægum fræjum til þess að tryggja að ferðaþjónustan verði sú mikilvæga stoð í íslensku atvinnulífi sem við viljum að hún sé. Þess vegna er þetta afar viðkvæmt mál. Það breytir þó engu um það að öllum réttindum, líka réttindum launþega, fylgir ábyrgð og réttindi sæta takmörkun vegna hagsmuna annarra. Ég ítreka það sem ég sagði áðan í ræðu minni, það getur aldrei gengið upp eða talist sanngjarnt eða réttlætanlegt að hagsmunir og launakröfur fárra aðila hafi svo víðtæk áhrif á hagsmuni annarra eins og hér um ræðir.

Til að forða því og tefla í hættu mikilvægum gjaldeyristekjum sem þjóðarbúinu eru nauðsynlegar til að standa undir skuldbindingum sínum og halda áfram þeim efnahagsbata sem við viljum öll að haldist, þarf Alþingi því miður að stíga inn í þessa deilu viðsemjenda með lagasetningu. Það er einnig ljóst að þær launahækkanir sem um var rætt í samningaviðræðum hefðu haft þó nokkur áhrif á aðra hluti í efnahag landsins, sérstaklega aukinn verðbólguþrýsting.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara hér í gegnum þær viðræður sem átt hafa sér stað eða þær kröfur sem gengið hafa á milli samningsaðila eða tjá mig um fyrirkomulag þess, að öðru leyti en því að ég harma að ekki hafi tekist að ná samningum. Það eru veruleg vonbrigði að þurfa að ganga til þessa verks með þessum hætti.

Hins vegar er ljóst af öllu ofangreindu að ríkir almannahagsmunir eru í húfi og ríkar ástæður eru fyrir því að fresta umræddum verkfallsaðgerðum. Inngrip Alþingis er því miður nauðsynlegt til að tryggja þá hagsmuni sem hér eru undir, bæði þjóðfélagslega, efnahagslega og einnig fyrir vinnumarkaðinn í heild sinni.

Í frumvarpi þessu er farin sú leið sem er nokkuð hefðbundin þegar til þessara verka þarf að koma á hinu háa Alþingi, þ.e. að gefa viðsemjendum færi á að leysa úr ágreiningi sínum fyrir tilsettan tíma, ella verði kjaradeilan lögð fyrir gerðardóm. Til að stuðla að aukinni sátt um ákvörðun gerðardóms er í frumvarpi þessu farin sú leið að fulltrúar launþega og vinnuveitenda tilnefni sinn fulltrúa hvor í gerðardóminn. Jafnframt er gerð rík krafa til hlutleysis þeirra og sérþekkingar. Gerðardómur skal þannig skipaður þremur fulltrúum, einum tilnefndum af Hæstarétti Íslands, einum af Félagi íslenskra atvinnuflugmanna og einum af Samtökum atvinnulífsins. Gerðardómur skal í ákvörðun sinni hafa til hliðsjónar kjarasamninga sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði á undanförnum mánuðum að því leyti sem við á af almennri þróun kjaramála, auk þess að taka mið af sérstöðu þeirra stéttarfélaga sem tilgreind eru í 1. gr. frumvarpsins sem nú hefur verið dreift til hv. þingmanna.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið tilefni þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Ég vil einnig nota tækifærið og að þakka fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna fyrir ágætan fund sem við áttum um málið í dag þar sem ég gerði grein fyrir mikilvægi þess að fá að mæla fyrir málinu hér sem allra fyrst. Ástæðan fyrir því að á málinu er nokkur hraði er að talið er afar mikilvægt fyrir hagsmuni Íslands og þeirra atvinnugreina sem ég hef rætt um að ekki verði látið við það sitja að svona ástand ríki í íslensku samfélagi í marga daga eða margar vikur. Þess vegna grípum við til þessarar aðgerðar núna og gerum það með þeim hætti að óska eftir afbrigðum utan venjubundins þingfundartíma.

Ég þakka formönnum þingflokka og öðrum sem að verkinu hafa komið í dag fyrir að sýna því skilning. Ég vona að hv. umhverfis- og samgöngunefnd noti tímann vel og að við getum afgreitt málið eins hratt og örugglega og mögulegt er við þessar aðstæður.