143. löggjafarþing — 113. fundur,  14. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[22:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, ég er ekki tilbúin að fella hér einhverja dóma um hvaða starfsstéttir að mínu mati eiga eða mega fara í verkföll eða ekki. Ég virði þennan rétt mjög mikils. Hann er stjórnarskrárvarinn og hann skiptir gríðarlega miklu máli. Hins vegar kemur upp í einstaka tilvikum, og það lýtur auðvitað mjög oft að því sem tengist almannahagsmunum er varðar samgönguöryggi, varðar það að menn komist til og frá þeim svæðum sem þeir búa á. Allt eru þetta almannahagsmunir sem skipta miklu máli. Þegar um það er að ræða eins og í þessu tilviki, og hefur verið í öðrum tilvikum þegar Alþingi hefur gripið til svona aðgerða, hefur það verið vegna þess að einhverjir hafa liðið það mikið fyrir aðgerðirnar að þingið hefur talið ástæðu til að grípa inn í.

Ég ætla ekki að fella dóma um hvað á og hvað má í þessu, ég treysti fullkomlega þeirri löggjöf sem í gildi er hvað það varðar. Ég ítreka það sem ég hef svo margoft sagt en get endurtekið hér, í mínum huga er þetta neyðarúrræði. Ég held að það svari spurningunni ágætlega.

Hvað varðar hins vegar almenna aðkomu löggjafans að þáttum eins og þessum held ég að það væri frekar hlutverk löggjafans að ræða þær heimildir og það hlutverk sem íslenskur ríkissáttasemjari hefur til samanburðar til dæmis við ríkissáttasemjara á Norðurlöndunum, sem er gjörólíkt. Þar hefur ríkissáttasemjari ákveðnar heimildir til að vinna með mál á breiðari grunni en hann hefur hér. Ég held að það væri eitthvað sem íslenskur löggjafi ætti að skoða frekar en að fella einhverja dóma um það hvaða stéttir megi nýta sinn lögvarða rétt til verkfalls eða ekki.