143. löggjafarþing — 113. fundur,  14. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[22:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að svona heimspekilegar lagatúlkanir hvað þetta varðar verði að bíða betri tíma en andsvar upp á eina mínútu leyfir. Ég ítreka hins vegar, í öllum þeim tilvikum sem hv. þingmaður nefndi, flugvirkjarnir árið 2010, starfsmenn Herjólfs og svo í þessu tilviki, þá fóru þeir aðilar — það er ekki rétt að segja að þeir hafi ekki mátt fara í verkfall — í verkfall og voru búnir að vera í verkföllum í ákveðinn tíma í flestum tilvikum, og það er ekki eins og verkfallsaðgerðin hafi verið stöðvuð. Hins vegar er gripið inn í þegar það er talið vera farið að hafa það skaðleg áhrif á samfélagið og almannahagsmuni að löggjafinn hafi ekkert annað í hendi en að gera það.

Við getum síðan deilt um það hvort þessi löggjöf er rétt, sanngjörn og eðlileg eða hvort við þurfum úr að bæta þar. Ég ætla ekki að útiloka neitt í því samhengi. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður. Ég ber mikla virðingu fyrir þessum rétti, þykir mjög miður að þurfa að hafa afskipti af honum með nokkrum hætti og vildi óska að aðilar á vinnumarkaði, hvort sem um er að ræða launþega eða atvinnurekendur, mundu axla sína ábyrgð þannig að ekki þurfi að koma til slíks.