143. löggjafarþing — 113. fundur,  14. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[23:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og sérstaklega fannst mér áhugavert það sem hann nefndi undir lok þess, þ.e. hvernig við metum hina ólíku hópa launþega og hvernig við metum verkfall til að mynda grunnskólakennara sem hefur áhrif á þúsundir, tugþúsundir barna og auðvitað líf foreldra þeirra líka en fyrst og fremst á menntun barnanna, út frá almannahagsmunum annars vegar og síðan þegar kemur að einhverju á borð við þetta þar sem rætt er um að leiðir til og frá landinu séu lokaðar. Hver ætlar að meta þá almannahagsmuni? Mér finnst það mjög góð spurning.

Hins vegar hvað varðar það hvort verkfallsrétturinn eigi að einhverju leyti að ráðast af þeim tekjum sem viðkomandi stéttir hafa þá tel ég okkur vera komin út á hála braut. Ef við lítum á verkfallsréttinn sem hluta af grudvallarréttindum, grundvallarmannréttindum fólks til að semja um kaup sitt og kjör, þá getur orðið mjög erfitt að draga einhverja línu á milli tekjuhópa í þeim hópi. Við hljótum að gera ráð fyrir að þetta sé almennur réttur. Það kann hins vegar að hafa mismikil áhrif, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, þegar ólíkir hópar fara í verkfall. Það er okkur kannski umhugsunarefni og tengist einmitt jöfnuðinum í samfélaginu af hverju við launum sumar stéttir hærra en aðrar, af hverju við gerum til dæmis ekki betur við kennara en við gerum núna, sem við þurfum að gera.