143. löggjafarþing — 113. fundur,  14. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[23:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, það er algjörlega hægt að treysta því, a.m.k. af hálfu þeirrar sem hér stendur, að ekki verður á minni vakt gengið til þessara verka nema í algerri neyð. Við metum það svo að það sé algjör neyð og ekkert annað sé í boði. Það segir ekkert til um hvað tekur við í öðrum deilum, ekki neitt.

Ég vil líka árétta það sem ég sagði áðan vegna þess sem hv. þingmaður nefndi, og ég er algjörlega sammála henni um, að ábyrgðin hvílir ekki bara hjá launþegum. Ég sagði ítrekað í framsögu minni hér áðan að ábyrgðin væri hjá báðum viðsemjendum og þeir ættu að upplifa þá ábyrgð mjög sterkt, enda er lagasetning af hálfu Alþingis í svona tilvikum, eins og ég sagði líka, óviðunandi og getur aldrei orðið meginregla og aldrei annað en algjör undantekning.

Ég þori ekki að fullyrða hvað gerist í framhaldinu varðandi deilur sem fram undan eru. Það eina sem ég get sagt er að árétta það sem ég sagði áðan, að ég mundi ekki samþykkja slík lög eða ganga til þess verks án þess að bera það undir Alþingi. Ég vona innilega að ekki komi til þess í öðrum deilum að við stöndum frammi fyrir því. Ég vil líka árétta það, út af því að mér finnst umræðan stundum hafa verið þannig að væntingar og þrýstingur séu á að Alþingi gangi til þessa verks, að það hefur ekki verið á ferðinni. Ég held að þetta sé ekki kostur sem neinn atvinnurekandi eða launþegahreyfing vill. Við erum einfaldlega í algjörri pattstöðu.

Þegar ríkissáttasemjari, sem við verðum auðvitað að treysta í þessum málum, metur það svo að ekki sé einu sinni flötur á því að boða til fundar þá erum við komin á mjög erfiðan stað. Ég vona að við stöndum ekki frammi fyrir sams konar deilu eða úrlausnarefni á næstunni.