143. löggjafarþing — 113. fundur,  14. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[23:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil bara í lok umræðunnar þakka hv. þingmönnum fyrir hana. Ég ítreka einnig þakkir til þingheims fyrir að taka málið svona hratt á dagskrá. Ég átta mig alveg á því, líkt og kom fram í máli hv. þingmanns sem talaði hér á undan, að málið ber nokkuð bratt að enda stóðu vonir til þess alveg fram á síðustu stundu að úr þessu mundi rætast með öðrum hætti. Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að verkefnið verður ekki leyst með öðrum hætti en þessum.

Ég vonast til þess að hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem fær málið til umfjöllunar fari yfir það þannig að ágæt sátt skapist um þá gesti sem þar koma o.s.frv. Ég veit að formaður nefndarinnar, hv. þingmaður, mun taka þannig á því verkefni.

Ég ítreka það sem ég hef sagt í umræðunni og ætla ekki að lengja það að hér er auðvitað um algjört neyðarúrræði að ræða. Ég geri engar athugasemdir við það að hv. þingmenn hafi um það sínar skoðanir og taki á því eins og hér hefur verið gert, enda er þetta alltaf mál sem er eðlilegt að menn vilji fara yfir með þeim hætti sem hefur verið gert hér í kvöld.

Fyrst og síðast, virðulegur forseti, þakka ég fyrir að hafa fengið að taka málið á dagskrá, vona að umræðan í nefndinni verði góð og með þeim hætti að við getum afgreitt það frumvarp sem hér liggur fyrir sem fyrst sem lög frá Alþingi.