143. löggjafarþing — 114. fundur,  15. maí 2014.

Landsbankabréfið.

[11:02]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um stöðu mála varðandi Landsbankabréfið svokallaða. Mér til glöggvunar og vonandi sem flestum væri gott að heyra hvað hæstv. forsætisráðherra er að hugsa í þeim efnum.

Eins og kunnugt er var gert þannig samkomulag í eftirleik hrunsins milli gamla Landsbankans, sem er núna þrotabú, og nýja Landsbankans, sem er að mestu í eigu ríkisins núna, að nýi Landsbankinn fékk umtalsverðar eignir í sinn hlut úr þrotabúi gamla Landsbankans, en þarf að greiða fyrir þær eignir sem hafa reynst æðiverðmætar með skuldabréfi. Þetta skuldabréf upp á 300 milljarða eða svo þegar allt er saman tekið hefur endurspeglað talsverða vá í íslensku efnahagslífi vegna þess að gert var ráð fyrir því að það yrði greitt á nokkuð stuttu árabili og með mjög fáum gjalddögum og það að greiða það svona bratt á milli nýja og gamla Landsbankans, vegna þess að skuldabréfið er í erlendri mynt af mörgum ástæðum, mundi ógna greiðslujöfnuði hér og leiða til þess að gengið mundi falla.

Ég hefði haldið að það væru góð tíðindi að búið væri að semja um lengingu bréfsins þannig að það ógnaði ekki lengur efnahagslegum stöðugleika á Íslandi. Þess vegna vekur athygli mína og mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er hann ósammála því að það sé í sjálfu sér gleðitíðindi að búið sé að lengja í bréfinu? Hvað hyggst hann fyrir ef ekki á að veita bankanum undanþágu (Forseti hringir.) til að greiða þetta bréf í samræmi við þessa samninga, hvað er þá planið?