143. löggjafarþing — 114. fundur,  15. maí 2014.

Landsbankabréfið.

[11:05]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða skuldabréf sem hv. þingmaður sagði í ræðu fyrir þinginu 9. maí að tilheyrði Icesave. Icesave hvarf ekkert, sagði hann þegar hann vísaði í þetta skuldabréf. Staðan núna er fyrst og fremst til þess fallin að sýna fram á hversu furðulegir samningar voru gerðir um þetta bréf á sínum tíma, væntanlega sem liður í Icesave-samningunum, en jafnvel það réttlætti ekki hvernig staðið var að gerð þessara samninga. Það er svo sem saga út af fyrir sig.

Það að lengja í þessu bréfi og það á hærri vöxtum er hins vegar ekkert augljóslega góður kostur. Þegar einhver skuldar eitthvað sem hann getur ekki borgað leysir það ekki öll mál að hækka vextina og láta þá tikka í lengri tíma.

Það sem snýr hins vegar að stjórnvöldum í þessu máli er hvort forsvaranlegt sé að veita undanþágu frá gjaldeyrishöftunum bara fyrir þessa aðila á meðan aðrir verða áfram lokaðir hér innan hafta. Það getur ekki verið forsvaranlegt að veita undanþágu fyrir einn eða tvo tiltekna aðila til þess að sleppa út með gjaldeyri, jafnvel niðurgreiddan gjaldeyri, gjaldeyri sem yrði þá niðurgreiddur af þeim sem eftir sætu í höftum og þar með talið íslenskum almenningi, hugsanlega með varanlegri skerðingu á raungengi krónunnar sem þýðir einfaldlega lakari lífskjör í landinu til framtíðar. Slík niðurstaða væri alltaf óásættanleg og þar af leiðandi gætu stjórnvöld ekki heimilað undanþágu frá höftunum sem leiddi til slíks.