143. löggjafarþing — 114. fundur,  15. maí 2014.

upplýsingar um skuldabréf Landsbankans.

[11:12]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er líklega rétt að útskýra, og taka því ekki sem gefnu að allir geri sér grein fyrir því, að ríkisstjórnin er ekki aðili að þessu samkomulagi á nokkurn hátt. Hér er um að ræða samkomulag með fyrirvörum milli gamla og nýja Landsbankans sem stjórnvöld, ríkisstjórn eða önnur stjórnvöld, hafa ekki komið að á nokkurn hátt. Hlutverk stjórnvalda verður eingöngu að leggja mat á hvort þetta samkomulag leyfi að veitt verði sérstök undanþága frá gjaldeyrishöftum. Stjórnvöld voru ekki í neinni aðstöðu til þess að upplýsa hv. þingmann eða aðra um gang þessara mála vegna þess að þau áttu enga aðild að þessum viðræðum.

Hverjar yrðu afleiðingarnar? spyr hv. þingmaður. Nú er það til skoðunar hjá Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu og þessir aðilar hafa töluverðan tíma til þess, a.m.k. þrjá mánuði, að leggja mat á hverjar afleiðingarnar yrðu. Ég efast ekki um að það verði fjallað um þetta á þeim vettvangi sem er til staðar til að eiga samskipti við fulltrúa allra flokka á Alþingi um þessi haftamál. Komið var á sérstakri nefnd þar sem allir flokkar eiga fulltrúa til að halda mönnum upplýstum um gang þeirra mála. Sú nefnd gat augljóslega ekki sett menn inn í gang mála í viðræðum sem stjórnvöld eiga enga aðild að. Nú hafa þessi samningsdrög verið kynnt og verið er að leggja á þau mat. Ég efast ekki um, svo ég ítreki það, að fjallað verði um það á þessum vettvangi eins og öðrum.