143. löggjafarþing — 114. fundur,  15. maí 2014.

upplýsingar um leynireikninga og aflandsfélög.

[11:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrst örstutt um Landsbankabréfið.

Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra um að það er furðulegt að vaxtakjör séu verri í endursömdum kjörum. Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra um að það er fráleitt að veita stóra undanþágu frá gjaldeyrishöftum án þess að lausn á höftunum öllum sé undir. Það er ekki hægt að hleypa sumum út og öðrum ekki. En ég hvet hæstv. forsætisráðherra til að beita sér fyrir þeirri samstöðu sem verður að vera í þinginu um þessi mál, því að hér verðum við Íslendingar að standa saman sem einn maður. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

En að efni fyrirspurnarinnar. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra um upplýsingar um leynireikninga og aflandsfélög í eigu Íslendinga sem skattrannsóknarstjóra hafa boðist. Við Íslendingar eigum að kaupa þessar upplýsingar um spillingu, um skattsvik og um alls kyns misferli sem farið hefur fram á aflandseyjum, eins og Þjóðverjar gera. Þjóðverjar eru kunnir að því að hafa aga í fjármálum, reglufestu og vera vandir að virðingu sinni. Ef þetta eru upplýsingar sem þýsk yfirvöld telja lögmætt og réttmætt að kaupa og nota til þess að koma lögum yfir menn sem reynt hafa að komast hjá lögum, þá eigum við að gera það líka.

Leiðtogar lýðræðisríkja um allan heim hafa í æ ríkari mæli á síðustu árum beitt sér gegn þeirri fjármálalegu spillingu sem fengið hefur að þrífast á aflandseyjum um heim allan. Forsetar og forsætisráðherrar hafa haldið sérstaka fundi til þess að ræða um það hvernig þeir geti sameinast í að berjast gegn þeirri óværu sem sú löglausa starfsemi oft og tíðum er.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann og ríkisstjórn hans muni ekki beita sér fyrir því að skattrannsóknarstjóri fái bæði þær heimildir og fjármuni sem hann þarf til þess að kaupa þessar upplýsingar, ekki síst vegna þess að þarna er að finna upplýsingar sem varða miklu (Forseti hringir.) um það hræðilega efnahagshrun sem hér varð á Íslandi og eru hluti af því að upplýsa um það og gera þau mál upp. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)