143. löggjafarþing — 114. fundur,  15. maí 2014.

yfirlýsingar forsætisráðherra um ýmsar dagsetningar.

[11:25]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þessi fyrirspurn var í stíl við ræðu hv. þingmanns í gærkvöldi. Þar var farið rangt með í öllum meginatriðum.

Hv. þingmaður heldur því fram að ég sé mjög duglegur að nefna dagsetningar. Ég hef reyndar verið frekar tregur til að nefna tilteknar dagsetningar einfaldlega vegna þess að það eru það margir óvissuþættir sem menn standa frammi fyrir í stjórnmálum að erfitt er að nefna tilteknar dagsetningar. Hins vegar er alveg rétt að ég hef talað um að við miðuðum við að hægt yrði að sækja um skuldaleiðréttingu þann 15. maí. Sú viðmiðun, eins og ég hef alltaf getið í samhengi við það þegar ég nefni þessa dagsetningu, byggði á því að þingstörfum átti að ljúka í dag. Á morgun stóð til að slíta þingfundum. Það hefur ekki gengið eftir. Það hefur ekki gengið eftir vegna þess að stjórnarandstaðan lagðist í dæmalaust málþóf, ekki aðeins í skuldamálunum heldur tók hún sér góðan tíma í að ræða hin smæstu mál til að skapa sér stöðu hér í aðdraganda þingloka, stöðu sem raunar virtist fyrst og fremst byggja á ótta við Evrópusambandstillöguna en svo kom í ljós að það var ýmislegt annað sem menn vildu ná í gegn með þeirri stöðu sem þeir næðu sér í með málþófinu.

Það er ekki við ríkisskattstjóra að sakast þótt menn geti ekki sótt um í dag. Ríkisskattstjóri, eftir því sem ég kemst næst og sá í fjölmiðlum í morgun, er með allt tilbúið þannig að um leið og þingið er búið að samþykkja getur hann ýtt á takkann og opnað fyrir vefinn. Ef þingið hefði haldið sig við áætlanir sínar, ef við hefðum ekki verið fórnarlömb þessa málþófs og hefðum klárað hér í dag þá hefði þetta að sjálfsögðu gengið eftir og menn hefðu getað sótt um strax í kvöld eða síðdegis.

Hins vegar treysti ég því nú að málþófið muni ekki vara mikið lengur þannig að við klárum þetta jafnvel í dag og á morgun. (Forseti hringir.) Þá er ekkert að vanbúnaði, það er allt til staðar til þess að opna fyrir umsóknir.