143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[13:45]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið sem sýndi okkur að hann er ekki tilbúinn að svara því augljósa, að með því að samþykkja þetta frumvarp setjum við að sjálfsögðu komandi kjaradeilur á þessu sumri í algjört uppnám og köllum yfir okkur frekari inngrip löggjafans.

Ég þekki ekki rekstur Icelandair sem er í þessu tilfelli mótaðilinn. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi átt fund með fyrirtækinu og að menn hafi farið yfir hvernig þeir ætla að halda á þessu máli, því að þetta er mikið áhyggjuefni, þetta er fyrirtæki sem samkvæmt fréttum skilar góðum hagnaði, ég hef þó ekki lesið ársreikninga félagsins. Þetta er fyrirtæki sem er í stærstu útflutningsgrein landsins. Hver er ábyrgð fyrirtækja í útflutningi fyrir því að ógna ekki almannahagsmunum? Ég tek undir það, verkfall flugmanna mun hafa hér mjög víðtæk áhrif og það er mjög alvarlegt mál. En hver er ábyrgð fyrirtækisins sem er leiðandi fyrirtæki sem skilar 27% aukningu í hagnaði á milli ára í stærstu útflutningsgrein landsins? Á þetta fyrirtæki von á því að það þurfi ekki að semja við starfsfólk sitt því að hér á Alþingi ætli þingmenn með lögum að taka þann rétt af starfsfólki fyrirtækisins?