143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair ehf.

600. mál
[14:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Verkfallsrétturinn eins og hann hefur verið notaður síðustu áratugi gengur út á það að valda þriðja aðila eins miklu tjóni og hægt er. Hann beinist ekki lengur gegn því fyrirtæki sem menn eru í samningssambandi við heldur einhverjum þriðju aðilum sem lenda þá í tjóni og í því felst þrýstingurinn.

Ég bendi á að í dag eru grunnskólakennarar í verkfalli. Í dag. Það hefur ekkert verið rætt um það. Það tjón sem stafar af því verkfalli er ekki síðra en kemur ekki fram fyrr en eftir einhverja áratugi og vegna þess að það kemur ekki strax fram hjá þriðja aðila og lokar til dæmis landinu eru menn ekki að tala um að setja bann á það verkfall.

Í desember náðust samningar um jafnvægi á vinnumarkaði, 2,8% töluðu menn um þá. Þessi kröfugerð hér er algjör sprengja inn í það samkomulag.