143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair ehf.

600. mál
[14:25]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar eru almannahagsmunirnir fyrir hendi, ríkir almannahagsmunir. Það eru skilyrði þess að við getum sett þessi lög, því miður. Það er ágætt að samstaða sé um það að minnsta kosti og ég vona að þjóðin skilji það ekki þannig að allir aðrir hlutir sem nefndir hafa verið komi til skoðunar, vegna þess að þeir gera það ekki.

Hér hefur verið fullyrt að ekki hafi verið leitað allra leiða, að ríkissáttasemjari hafi ekki lagt fram miðlunartillögu. Engu að síður ræddi ríkissáttasemjari það á fundi nefndarinnar að við mundum stytta þann tíma sem aðilar fengju til þess að ná sáttum og jafnframt þann tíma sem dómarinn fengi til þess að skera úr um málið. (Forseti hringir.) Ég held að það séu skýr merki um það, virðulegi forseti, að ekki eru forsendur til þess að ætla (Forseti hringir.) að lengra hefði verið hægt að ná í þessum kjaraviðræðum. Því miður. (Forseti hringir.) Þess vegna verðum við því miður að setja þessi lög hér í dag.