143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:02]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður og hv. flokkssystir hv. þingmanns hafa kallað eftir viðveru Sjálfstæðisflokksins og sjálfstæðisþingmanna. Ég vil taka fram að ég hef setið hér alla umræðuna, annað tveggja í salnum eða niðri á skrifstofu. Ég hef ekki vikið úr húsi þann tíma sem umræður um séreignarsparnaðinn og fasteignalánin hafa átt sér stað og er hér sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Ég er jafnframt á þessu nefndaráliti og í ljósi þess sem Björt framtíð hefur sjálf sagt tel ég ekki ástæðu til þess að endurtaka það sem þar stendur. Ég stend að nefndarálitinu og þarf þar af leiðandi ekki að taka til máls frekar um þau atriði.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að hún talar um það sem gert hefur verið og síðan sagði hv. þingmaður: Svo fóru bankarnir. Og hélt hún áfram með það sem þeir höfðu gert. Það eru 14 þúsund heimili sem hafa fengið 108 milljarða vegna gengistryggðu lánanna. Það eru 17 þúsund heimili sem hafa fengið 56 milljarða vegna 110%-leiðarinnar. Þetta er hvort tveggja af hálfu bankanna og svo skuldaaðlögunin (Forseti hringir.) sem átt hefur sér stað líka. Hvað annað er hv. þingmaður að tala um? Hvar telur hún að ríkissjóður hafi komið (Forseti hringir.) hér að fyrir utan vaxtabætur?