143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um að þessar ráðstafanir væru tilviljunarkenndar. Nú er það svo að skuldaleiðréttingin tekur til 69 þús. heimila í landinu og ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður geti útskýrt fyrir mér í hverju þessar tilviljanir liggi. Um leið og ég gleðst yfir því að það stendur greinilega vel á hjá hv. þingmanni — fyrst hún telur að milljón króna lækkun á skuld að meðaltali á heimili skipti engu, og að nokkrir þúsundkallar á mánuði í útgjöldum, eða greiðslu af íbúðarhúsnæði skipti engu — langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort það sé virkilega hennar bjargfasta skoðun að fólk sem til dæmis er með 6 milljónir í heimilistekjur á ári, sem er um það bil helmingur þess hóps sem fær þessar bætur, muni ekki um að skuldir þess lækki að meðaltali kannski um 1 milljón króna.