143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er með mikilli gleði að ég tek hér til máls í þessari umferð þar sem verið er að ræða leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Nú hillir undir að þetta frumvarp verði að lögum og fólk geti á næstu dögum farið að sækja um niðurfellingar. Fagna ég því mjög að nú sé loks komið til móts við þá sem ekki hafa fengið bætur vegna forsendubrestsins sem varð hér á haustdögum 2008. Þá vísa ég í það að hópur fólks fékk leiðréttingu í gegnum dómstólana þegar gengistryggðu lánin voru dæmd ólögleg og aðrir fengu bætur eða tryggingu fyrir því að inneignir þeirra í bönkum væru tryggðar. Það var gert með neyðarlögunum en eftir stóð stór hópur fólks sem var með verðtryggð húsnæðislán sem stökkbreyttust í hruninu.

Hv. efnahags- og viðskiptanefnd beindi því erindi til fjárlaganefndar að nefndin mundi skila umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar. Hv. fjárlaganefnd vann vinnuna þannig að umsögnin var skrifuð um bæði frumvörpin. Þá er ég að vísa í frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar og frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána sem við ræðum hér í dag.

Ég vil benda þingmönnum og þeim sem hér hlusta og horfa á að umsögn meiri hluta fjárlaganefndar er hér sem fylgiskjal I í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefnd og byrjar á bls. 7.

Þeir sem skrifa undir álit meiri hluta fjárlaganefndar eru, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, Haraldur Benediktsson, Haraldur Einarsson, Karl Garðarsson og Valgerður Gunnarsdóttir.

Vinnulagið sem við höfðum í fjárlaganefnd var þannig að við héldum tvo fundi um þessi frumvörp, fengum til okkar gesti frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Seðlabanka Íslands, Landsbanka Íslands, Arion banka og svo til að ræða séreignarsparnaðarfrumvarpið komu líka aðilar frá Landssamtökum lífeyrissjóða.

Það kom þægilega á óvart hvað þessir aðilar og gestir voru jákvæðir gagnvart þessum frumvörpum. Fram kom fram á fundinum að Seðlabankinn telur að þjóðhagsleg áhrif þessara aðgerða séu hlutlaus, þ.e. að þetta raski ekki jafnvægi í ríkisrekstri.

Hér hefur verið farið yfir það að þessar leiðréttingar komi frá skattgreiðendum. Ég minni á að hér er verið að leggja til að leggja á sérstakan bankaskatt og hækka hann, þannig að fjármögnunin er í gegnum bankaskattinn, mér finnst það ekki koma nógu oft fram. Sumir telja að bankaskatturinn sé lögleysa og að kröfuhafar láti reyna á bankaskattinn en því er til að svara að það liggur alveg skýrt fyrir hver fer með skattlagningarvaldið í þessu landi, það eru þingmenn sjálfir, það er Alþingi sjálft. Það eru engar efasemdir hjá þeim aðilum sem komið hafa fyrir fjárlaganefnd um þá heimild. Þeir telja að þetta sé heimilt og þar af leiðandi sé þetta löglegur skattur. Það reyndi á sambærilega skattlagningu fyrir skemmstu fyrir íslenskum dómstólum þegar einstaklingur ætlaði að sækja rétt sinn á þeim grunni að auðlegðarskatturinn sem síðasta ríkisstjórn lagði á væri ólöglegur.

Það mál fór í gegnum bæði dómstig og Hæstiréttur dæmdi að Alþingi færi með skattlagningarvaldið og þess vegna væri auðlegðarskatturinn löglegur.

Varðandi þau áhrif sem frumvarpið hefur á fjárlögin þá nemur heildarvelta fjárlaga um 613 milljörðum og sú aðgerð sem lögð er til í þessu frumvarpi vegur fjórðung af fjárlögum en dreifist á fjögur ár. Vert er að hafa það í huga því að gert er ráð fyrir rúmum 20 milljörðum á ári næstu fjögur ár.

Á tekjuhlið munar langmest um auknar tekjur af bankaskattinum sem við erum að fara yfir hér, alls 92 milljarðar sem eiga að skila sér á fjórum árum.

Svo er það gjaldahliðin sem eru 20 milljarðar í árlegan kostnað vegna afborgana og vaxta af leiðréttingarhluta þessa frumvarps, auk umsýslukostnaðar, í allt 80 milljarðar á fjórum árum.

Fram kom hjá öllum gestum fjárlaganefndar að þeir töldu mjög jákvætt að þessar aðgerðir væru að fullu fjármagnaðar og hefðu því ekki neikvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs. Ég ætla að segja þessa setningu aftur, virðulegi forseti: Allir gestir sem komu til fjárlaganefndar töldu mjög jákvætt að aðgerðirnar væru að fullu fjármagnaðar og hefðu því ekki neikvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs.

Þarna komu fulltrúar fjármálaráðuneytisins, Seðlabankans og frá bönkunum öllum.

Seðlabankinn hefur lagt mat á heildaráhrif aðgerðanna, á innlenda eftirspurn, hagvöxt og framleiðsluspennu. Einnig hefur hann kannað áhrifin á viðskiptajöfnuð, gengi krónunnar og verðbólgu. Seðlabankinn áætlar að skuldir heimila minnki um 8% og að hreinn auður heimila hækki um meira en 100 milljarða vegna aðgerðanna. Bankinn telur einnig að einkaneysla aukist samtals um allt að 4% á tímabilinu og að áhrif á fjárfestingu verði neikvæð fram til ársins 2016, en eftir það snúist dæmið við þegar áhrif aukinna efnahagsumsvifa vegna aukinna ráðstöfunartekna vega þyngra en neikvæð áhrif hærri vaxta.

Eins og ég sagði áðan telur Seðlabankinn að þegar áhrifin eru komin að fullu fram verði þjóðarútgjöld 2% hærri en ella vegna aðgerðanna. Að öllu samanlögðu telur Seðlabankinn að þjóðhagsleg áhrif aðgerðanna séu hlutlaus.

Það er það sem skiptir mestu máli í þessum aðgerðum, þetta hefur ekki teljandi áhrif eins og úrtölumenn þessa frumvarps hafa haldið fram.

Meiri hlutinn sem skilaði þessu áliti til hv. efnahags- og viðskiptanefndar leggur áherslu á að ekki verði vikið frá þeim markmiðum sem koma í frumvarpinu, að endanleg útgjöld verði ákvörðun Alþingis í fjárlögum hvers árs og þá er hægt að tryggja að jafnvægi verði í gjöldum og tekjum ríkissjóðs vegna aðgerðanna. Þannig gefst Alþingi færi á því að bregðast við ef sýnt þykir að fjárhagsáætlanir gangi ekki eftir og tryggja að aðgerðirnar verði ávallt að fullu fjármagnaðar. Með því móti nást fram jákvæð áhrif aðgerðanna í samræmi við markmið frumvarpsins, samhliða því að ekki verði gefinn neinn afsláttur af sjálfbærni, varfærni og stöðugleika við stjórn ríkisfjármála.

Þarna bendir meiri hluti fjárlaganefndar á að þetta eru ekki einskiptisaðgerðir, ef svo má að orði komast, heldur kemur þetta inn á fjórum árum og þá með eftirliti nefnda þingsins, sérstaklega fjárlaganefndar. Þá er hægt að bregðast við á hverju ári ef eitthvað fer úr böndunum með því að endurskoða málin upp á nýtt. Það er mjög jákvætt þegar um svo háar fjárhæðir er að ræða, þegar rúmir 80 milljarðar eiga að skila sér til skuldugra heimila með samþykkt þessa frumvarps sem við ræðum hér og nú.

Virðulegi forseti. Ég óska heimilum landsins til hamingju með þetta mál á þessum fallega degi.