143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem á mælendaskrá aftur til að mæla fyrir breytingartillögu við það frumvarp sem hér er til umræðu sem ég mun flytja og mun koma til atkvæða í lok þessarar umræðu, en þingsköp komu í veg fyrir að ég gæti mælt fyrir henni í upphafsræðu minni í þessu máli. Hana er að finna á þskj. 1103 og í henni felast í grunninn þrjú atriði.

Í fyrsta lagi leggjum við til að undantekningin í 3. gr. laganna verði felld niður þannig að það verði ekki lengur þannig að lokuð leigufélög og húsnæðissamvinnufélög njóti ekki leiðréttingarinnar. Samkvæmt ákvæði 3. gr., eins og hún lítur nú út, eru allir lögaðilar undanskildir ávinningi af leiðréttingunni. Tillaga okkar felur í sér að í tilviki lokaðra leigufélaga, sem eru leigufélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og geta þar af leiðandi ekki greitt út arð, og í tilviki húsnæðissamvinnufélaga, verði leiðréttingin látin taka til þeirra með sama hætti og til einstaklinga sem kaupa sitt eigið húsnæði. Fyrir því eru augljós sanngirnisrök. Þeir sem leigja hjá lokuðum leigufélögum þurfa að greiða leigu sem endurspeglar algerlega þróun lánasafnsins sem að baki stendur. Þegar verðtryggð lán, sem leigufélagið hefur tekið, eru leiðrétt með sama hætti og lán einstaklinga sem búa í sínu eigin húsnæði myndast svigrúm í rekstri hinna lokuðu leigufélaga og þau geta ekki nýtt það svigrúm til að greiða sér út arð, heldur eiga þau þann kost einan að lækka leiguna á móti, þannig að það mun beint koma til ávinnings fyrir leigjendur.

Ég verð bara að segja að ég auglýsi eftir efnislegum rökum fyrir því að þessi undanþága verði felld niður og leigjendum skapaður sami réttur og þeim sem eiga sitt eigið húsnæði. Ég hef ekki heyrt þau rök. Menn hafa vísað til þingsályktunartillögunnar í sumar, sem samþykkt var og veitti umboð til gerðar þessa frumvarps, en sú þingsályktunartillaga bindur ekki hendur þingsins og meiri hlutans og getur ekki verið sjálfstæð réttlætingarástæða fyrir óásættanlegri og ástæðulausri mismunun.

Í annan stað, hvað húsnæðissamvinnufélögin varðar, er það nú þannig að skuldarar í húsnæðissamvinnufélögum eiga meira sameiginlegt með skuldurum sem eiga sitt eigið húsnæði. Eigendur búseturéttar eru skuldarar að tilgreindum lánum. Þeir fá vaxtabætur vegna þeirra lána. Það er þar af leiðandi algerlega ljóst hverjir eru skuldararnir. Þetta er ekkert eignasafn sem að baki stendur heldur lán sem hvíla á viðkomandi íbúð. Þar af leiðandi tel ég það ekki standast jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að veita þeim ekki sama rétt og öðrum borgurum til lækkunar húsnæðisskulda.

Ég ítreka það sem ég sagði varðandi leigjendur. Ég hef engin efnisrök séð fyrir því að undanskilja búseturéttarhafa að þessu leyti. Þeir fá ekki neina aðra úrlausn sem er sambærileg við eigendur í eigin húsnæði sem mun gera þá jafnsetta. Menn segja að það eigi að styrkja umgjörð leigumarkaðarins, það mun ekki lækka þau lán sem á lokuðum leigufélögum hvíla, þannig að það skiptir miklu máli að hér sé samræmis gætt. Ég tel, sérstaklega í tilviki búseturéttarhafa, engar líkur á að þessi mismunun standist ákvæði stjórnarskrárinnar. Ég mun satt að segja, verði þessi breytingartillaga felld, óska eftir því að málið gangi til nefndarinnar á milli 2. og 3. umr. og þá komi sérfræðingar á sviði veðréttar í nefndina og fari með okkur yfir stjórnskipulega stöðu málsins.

Virðulegi forseti. Í breytingartillögunni er líka að finna ákvæði um eigna- og tekjuskerðingar. Við höfum nú átt hér alllanga samræðu við fulltrúa stjórnarmeirihlutans um þetta mál. Ég verð satt að segja að segja eins og er að ég er algerlega gáttaður á því hvers vegna þeir búa til þann veikleika á þessu máli að setja engar hömlur á að allra ríkasta fólk landsins og allra mestu stóreignamenn fái hér almannafé, fólk sem engu tjóni hefur orðið fyrir. Ég held einfaldlega að þeir mundu bæta mjög málið með því að samþykkja breytingartillögu okkar í þessa veru. Það er alveg ljóst að öll hagræn rök mæla með því.

Á fund efnahags- og viðskiptanefndar í morgun komu aðalhagfræðingur Seðlabankans og yfirmaður hagdeildar Alþýðusambandsins. Niðurstaða þeirra var sú að allt sem gæti horft til þess að takmarka frekar þessa aðgerð við núverandi aðstæður væri jákvætt. Þar af leiðandi væri slík eigna- og tekjumörkun jákvæð vegna þess að aðgerðin mun að óbreyttu leiða til vaxtahækkunar, verðbólgu, veikara gengis og minni fjárfestinga. Til einhverra mótvægisaðgerða þarf að grípa af hálfu ríkisins, líklega skattahækkana og niðurskurðar, til þess að koma í veg fyrir verðbólgu og þessi neikvæðu áhrif í kjölfarið.

Tillagan sem ég geri í þessu efni, hvað tekjurnar varðar, er að réttur til leiðréttingarinnar byrji að skerðast þegar náð er launum sem svarar 85% af hæstu launum í landinu og að skerðingin komi að fullu til framkvæmda við 95% markið. Það þýðir að 5% ríkasta fólksins í landinu fái enga niðurfellingu. Þeir sem eru á bilinu 5 til 15% hinna ríkustu fái skerta niðurfellingu.

Ég spyr: Hvernig geta menn sem kenna sig við réttlæti verið á móti ráðstöfun af þeim toga? Hér er ekki verið að fara í að skerða rétt meðaltekjufólks, hér er bara verið að tala um að taka út allra ríkasta hóp landsins úr rétthöfum til leiðréttingarinnar.

Með sama hætti gerum við ráð fyrir að sömu eignamörk verði sett inn sem takmörkun og giltu um hina sérstöku vaxtaniðurgreiðslu á sínum tíma, þ.e. að rétturinn byrji að skerðast við 10 milljónir hjá einstaklingi og 15 milljónir hjá hjónum og sambýlisfólki og skerðist til fulls og að niðurfellingarrétturinn falli niður við 20 milljónir hjá einstaklingi og 30 milljónir hjá hjónum í skuldlausri eign. Ég er svo sem alveg til viðræðu um að hafa þessi mörk eitthvað rýmri ef það getur verið til samstöðu fallið, en ég sé einfaldlega engin efnisrök fyrir að setja ekki slík rök.

Nú liggja fyrir greiningar og tölur um að að óbreyttu muni rétturinn til niðurfellinga ná til, svo að dæmi sé tekið, 400 manns sem greiddu auðlegðarskatt hingað til og skulda að meðaltali 10 milljónir í íbúð, en eiga eignir skuldlausar upp á 44 milljarða kr. Það er auðvitað gríðarlega öfugsnúið þegar fyrir liggur að aðgerðin mun óhjákvæmilega valda kostnaði í samfélaginu sem allir bera, líka fátækt fólk. Hún mun valda verðbólgu, hún mun valda hærri vöxtum og ef á að takast að halda aftur af verðbólgunni þarf annaðhvort háa vexti eða niðurskurð í ríkisútgjöldum á opinberri þjónustu eða hækkun skatta. Hún hefur í för með sér neikvæð hliðaráhrif efnahagslega. Hún er ekki jákvæð efnahagsaðgerð við núverandi aðstæður í efnahagslífinu. Þar af leiðandi er full ástæða til þess að við séum ekki að leggja byrðar á lágtekjufólk, lífeyrisþega, námsmenn og aðra sem ekkert fá út úr þessari aðgerð í þágu stóreignafólks sem situr eftir með stórar eignir og fær almannafé til að lækka þær og herkostnaðurinn er borinn af fátæku fólki.

Virðulegi forseti. Að síðustu geri ég að tillögu minni hér að sett verði inn sérstakt ákvæði til bráðabirgða sem feli ríkisstjórninni að leggja fram á Alþingi lagafrumvarp um leiðréttingu námslána til samræmis. Ef efnisrök eru fyrir leiðréttingu á forsendubresti vegna hækkunar verðtryggðra lána hljóta þau rök að gilda líka um námslán. Gefinn er hóflegur frestur fyrir ríkisstjórnina til þess að útfæra lausn að þessu leyti.

Ég læt við svo búið lokið máli mínu.