143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að þetta er sárt fyrir hv. þingmann og talsmann ríkisstjórnarmeirihlutans, en staðreyndin er ósköp einfaldlega sú að Seðlabankinn hefur gert á þessu greiningu. Það þýðir ekki að deila við dómarann í því efni að hann telur að uppsöfnuð verðbólga vegna aðgerðanna verði 1,5%. Hann telur að það verði þrýstingur á gengið til lækkunar. Það kom fram í morgun að ný greining muni koma fram í ágústmánuði á áhrifum aðgerðarinnar. Það er líka ljóst að gengislækkun er spáð um 3,4%. Það mun rýra kaupmátt heimilanna til kaupa á innfluttum varningi.

Í nefndaráliti mínu er þess freistað að leggja mat á þessar tölur. Við teljum að hækkun á lánum heimila vegna aðgerðarinnar muni nema um 23 milljörðum vegna hækkunar verðtryggðra lána því að verðbólgan mun leita út í lánin aftur, þannig að þetta er eins og að pissa í skóinn gagnvart heimilunum. Ríkið mun bera kostnað upp á 38 milljarða og fyrirtækin upp á 23, það verður þá minna til ráðstöfunar til að ráða nýtt fólk og svo liggja fyrir áhrif á sveitarfélög, sem reyndar eru vanáætluð í nefndaráliti mínu, og áhrif á Íbúðalánasjóð, sem líka munu lenda á ríkinu. Þetta eru allt kostnaðarliðir. Þau liggja fyrir þessi neikvæðu efnahagslegu áhrif. Það liggur fyrir að greiningaraðilar eru sammála um að það sé ekki sú aðstaða í framleiðsluslaka í hagkerfinu sem muni valda því að hagkerfið taki við þessari leiðréttingu án hliðarverkana og eftirkasta. Það er bara þannig að hagstjórn er á ábyrgð stjórnvalda. Hér eru menn að bregðast í hagstjórnarhlutverkinu.